Innlent

Vegfarendur varaðir við varasamri ísingu

Birgir Olgeirsson skrifar
Það mun frysta víða á rennandi blauta vegi nú í kvöld og nótt.
Það mun frysta víða á rennandi blauta vegi nú í kvöld og nótt. vísir/gva
Vegagerðin varar vegfarendur suðvestan- og vestanlands við varasamri ísingu. Í ábendingu frá veðurfræðingi fyrir kvöldið og nóttina sem birtist á vef Vegagerðarinnar kemur fram að suðvestan- og vestanlands frystir víða á rennandi blauta vegi nú í kvöld og nótt þegar lægir og rofar til. Eins má búast við því á Suðurlandsundirlendinu og vestantil á Norðurlandi.

Hálkublettir eru á Reykjanesbraut, Sandskeiði og í Þrengslum en hálka á Hellisheiði. Hálkublettir hafa einnig myndast mjög víða á öðrum leiðum á Suðurlandi með kvöldinu.

Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir á fjallvegum en greiðfært á flestum láglendisvegum.

Snjóþekja, hálka eða hálkublettir eru víðast hvar á Vestfjörðum en þæfingsfærð og skafrenningur á Steingrímsfjarðarheiði.

Vegir eru að mestu auðir á Norður- og Austurlandi en hálka og skafrenningur á Öxnadalsheiði og hálkublettir á Oddskarði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×