Erlent

Ákært fyrir manndráp

viktoría hermannsdóttir skrifar
Marilyn Mosby sagði á fundinum í gær að um manndráp hefði verið að ræða.
Marilyn Mosby sagði á fundinum í gær að um manndráp hefði verið að ræða. NORDICPHOTOS/GETTY
Sex lögregluþjónar í Baltimore verða ákærðir fyrir að hafa komið að dauða hins 25 ára Freddie Gray.

Gray lést af áverkum meðan hann var í umsjá lögreglu og brutust út miklar óeirðir í borginni í kjölfar þess. Því hafði meðal annars verið haldið fram að Gray hefði reynt að veita sér áverkana sjálfur.

Ákærurnar eru í nokkrum liðum en að minnsta kosti einn mannanna hefur verið ákærður fyrir manndráp.

fÖGNUÐU ÁKAFT Mótmælendur í Baltimore fögnuðu ákaft eftir yfirlýsingu saksóknarans. NORDICPHOTOS/GETTY
Marilyn Mosby ríkissaksóknari sagði á blaðamannafundi í gær að um manndráp hefði verið að ræða og að handataka Grays hefði verið ólögleg. Hún sagði að áverkar sem Gray hlaut á mænu eftir handtökuna hefðu dregið hann til dauða. Fyrir liggur að Gray var handtekinn og hafður í lögreglubíl í um fjörutíu mínútur áður en hann var færður á lögreglustöð.

„Til fólksins í Baltimore og mótmælenda víða um Bandaríkin. Ég heyrði kall ykkar „ekkert réttlæti, enginn friður“. Það er þörf á friði meðan ég vinn að því að ná fram réttlæti fyrir hönd þessa unga manns,“ sagði Moby á fundinum í gær og vísaði þar til Grays.

Mótmælendur í Baltimore fögnuðu mjög yfirlýsingu Mosby. Neyðarástandi var lýst yfir í borginni þegar óeirðirnar stóðu sem hæst og þjóðvarðliðar kallaðir til.

Gray var dökkur á hörund og sá síðasti meðal margra ungra svartra manna sem látið hafa lífið í átökum við lögreglu í Bandaríkjunum undanfarin misseri.

Lögregluþjónarnir sex voru allir leystir frá störfum í kjölfar dauða Grays. Ekki hefur verið greint frá því hvort þeir séu nú í haldi lögreglu eður ei.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×