Innlent

Segir sæstrengsmál í hárréttum farvegi

Svavar Hávarðsson skrifar
Ragnheiður Elín Árnadóttir Hefur ekki gert upp hug sinn um sæstreng – og sér bæði kosti og galla við verkefnið.
Ragnheiður Elín Árnadóttir Hefur ekki gert upp hug sinn um sæstreng – og sér bæði kosti og galla við verkefnið. fréttablaðið/gva
„Við erum í góðu samtali við Breta um það sem tímabært er að ræða. Hvað sem einhverjir kunna að halda fram þá er enginn gluggi að lokast á næstu misserum. Ég fullyrði það enda hef ég spurt orkumálaráðherra Breta að því sjálf,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um undirbúningsvinnu stjórnvalda í tengslum við hugsanlega lagningu sæstrengs á milli Íslands og Bretlands og samskipti við þarlend stjórnvöld.

Charles Hendry, fyrrverandi orkumálaráðherra Breta og ráðgjafi hjá Atlantic Superconnection Corporation, sagði á fundi Kjarnans og Íslenskra verðbréfa um sæstrengsverkefnið nýlega að bresk stjórnvöld vildu eindregið taka upp viðræður við íslensk stjórnvöld um stöðu verkefnisins. Hins vegar væri engin krafa gerð til þess að stjórnvöld hér gæfu afdráttarlaus svör á þessum tímapunkti.

Í framhaldi af fundinum sagði Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, í viðtali við Fréttablaðið að hann sæi ekkert því til fyrirstöðu að taka upp viðræður við Breta um sæstreng þó undirbúningsvinna standi yfir hérna heima. Hann vill hraða málinu og fá svör við lykilspurningum frá Bretum og hér heima.

Ragnheiður segir það rangt að Bretar sæki fast að setjast niður til viðræðna um sæstrengsmál. Samskipti hennar við núverandi orkumálaráðherra Breta, Matthew Hancock, og fyrirrennara hans, Michael Fallon, hafi einkennst af hinu gagnstæða. Þeir hafi sýnt skilning á því að verkefnið krefðist mikillar heimavinnu en hafi boðið fram aðstoð sína með alla þá þætti sem þeir gætu.

„Við erum að vinna þetta m.a. eftir forskrift atvinnuveganefndar og þetta mál krefst yfirlegu. Einhverjum kann að finnast að málið gangi ekki nógu hratt, en ég er ósammála því. Það sem vakir fyrir okkur er að vanda okkur eins og kostur er og gæta að íslenskum hagsmunum.“

Ragnheiður hnykkir á að settur hafi verið á fót verkefnahópur á vegum ráðuneytisins sem sé að skoða þau átta verkefni sem lögð voru til í áliti atvinnuveganefndar. Þau eru öll komin í farveg. Síðast hafi verið boðið út „ítarleg þjóðhagsleg kostnaðar- og ábatagreining á áhrifum raforkusæstrengs á íslenskt samfélag“, eins og verkefnið er kallað. Straumur fjárfestingarbanki sé um þessar mundir að hefja þá vinnu. Samkvæmt tímaáætlun verður undirbúningsvinnan í hendi um eða eftir næstu áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×