Myndin bar fyrst vinnuheitið Prometheus 2, fékk síðar nafnið Alien: Paradise Lost en gengur nú undir nafninu Alien: Covenant (sáttmáli).
Sama hvaða nafn þessi framhaldsmynd fær þá mun hún fylgja eftir atburðunum sem áttu sér stað í Prometheus sem kom út árið 2012. Þar fengu áhorfendur að fylgjast með landkönnuðum ferðast til tunglsins LV-223 árið 2093 þar sem meiningin var að hitta þá sem einhverjir úr hópnum töldu hafa skapað mannkynið.

Kvikmyndaverið 20th Century Fox segir Alien: Covenant eiga að vera mynd númer tvö í þríleik kvikmynda sem eiga að vera forsaga Alien-myndanna þar sem ætlunin er að svara hvers vegna skepnan, sem Ellen Ripley þurfti að kljást við í fjórum Alien-myndum, var sköpuð.
Neill Bloomkamp, sem á að baki District 9, Elysium og Chappie, átti að leikstýra næstu Alien-mynd en framleiðslu hennar hefur verið frestað um óákveðinn tíma, allavega þangað til Ridley Scott lýkur framleiðsu Alien: Covenant.
Myndin mun segja frá áhöfn skipsins Covenant sem uppgötvar plánetu sem hún telur í fyrstu vera einskonar paradís, en kemst síðar að því að plánetan er afar hættulegar staður með aðeins einum íbúa, vélmenninu David.