Eyjólfur Héðinsson, leikmaður Midtjylland í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta, er búinn að semja við Stjörnuna og leikur með liðinu í Pepsi-deildinni á næstu leiktíð.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Stjörnunni, en þessi þrítugi miðjumaður skrifaði undir tveggja ára samning við Garðabæjarfélagið.
Eyjólfur er nýkominn til baka eftir langvarandi meiðsli, en hann spilaði á dögunum sinn fyrsta leik í rúmt eitt hálft ár fyrir Midtjylland.
Eyjólfur sló í gegn með Fylki í úrvalsdeildinni og fór til GAIS í Svíþjóð 2006. Þaðan gekk hann í raðir SönderjyskE í Danmörku áður en núverandi Danmerkurmeistarar Midtjylland sömdu við Breiðhyltinginn fyrir þremur árum.
Í viðtali við Vísi í byrjun mánaðarins sagði Eyjólfur að hann væri að öllum líkindum á heimleið og væri byrjaður að leita sér að liði.
„Ég býst bara við að koma heim um áramótin. Ég þarf að byrja upp á nýtt. Ég er ekkert heimskur. Ég veit að ég á ekki mikla framtíð hér nema mest megnis í varamannshlutverki. Nú þegar ég er að koma aftur eftir meiðslin vil ég bara spila fótbolta og býst því við að finna mér lið heima á Íslandi,“ sagði Eyjólfur.
Eyjólfur er annar leikmaðurinn sem Garðbæingar fá til sín á síðustu dögum, en liðið samdi við Baldur Sigurðson á föstudaginn, fyrrverandi fyrirliða KR. Hann, eins og Eyjólfur, kemur til móts við Stjörnuna um áramótin þegar vetrarfrí skellur á í dönsku úrvalsdeildinni.
Stjarnan er búin að missa sterka leikmenn í Gunnari Nielsen, Pablo Punyed og Michael Præst en hefur fengið á móti Eyjólf, Baldur, Grétar Sigfinn Sigurðarson og Hilmar Árna Halldórsson.
Eyjólfur Héðinsson í Stjörnuna

Tengdar fréttir

Lítur ekki á sig sem danskan meistara
Midtjylland, lið Eyjólfs Héðinssonar, var danskur meistari á síðasta tímabili en íslenski miðjumaðurinn fékk ekki að taka þátt í því að vinna titilinn.

Gremjan kemur líklega bara fram seinna
Eyjólfur Héðinsson er líklega á heimleið frá Midtjylland í Danmörku eftir hálft þriðja ár hjá dönsku meisturunum. Breiðhyltingurinn hefur verið mikið meiddur undanfarin ár en telur sig eiga mikið eftir.