Viðskipti innlent

Marple-málið: Peningarnir fóru úr hægri vasanum í þann vinstri

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hörður Felix og Hreiðar Már í réttarsal.
Hörður Felix og Hreiðar Már í réttarsal. Vísir/GVA
„Af hverju í ósköpunum reyndi saksóknari aldrei að sýna fram á að fjármunir þeir sem um ræðir í þessu máli hafi endað á einhverjum öðrum stað en hjá Kaupþingi,“ spurði Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, í munnlegum málflutningi í Marple málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Í upphafi ræðu sinnar rak hann þau atvik sem leiddu til þeirra atvika sem ákært er fyrir í málinu. Skjólstæðingur hans hafði gert hið sama við upphaf aðalmeðferðarinnar á mánudag en Hörður ákvað að rifja þá upp.

Í greiningu erlendra aðila frá árinu 2006 kom fram að einn helsti veikleiki íslenska fjármálakerfisins væru krosstengsl aðila á því. Dæmi um það var að á þeim tíma átti Exista stóran hlut í Kaupþing sem á móti átti stóran hlut í Exista. Til að leysa vandamálið var stefnt að því að skrá Exista í kauphöll, efla rekstur þess og selja hlut Kaupþings í félaginu.

Talsverð ágóðavon var í upphafi

Til að byrja með tók Exista yfir öll hlutabréf í VÍS. Við það kom fram krafa frá Hesteyri ehf., einum stærsta hluthafa VÍS, um að vera tryggð sala á bréfum í Exista er það færi á markað. Voru útbúnir kaup- og söluréttarsamningar milli Hesteyrar, Bakkabræðra Holding og óstofnaðs félags en Kaupþing ábyrgðist efndir söluréttarsamningsins gagnvart Hesteyri. Marple yfirtók hluta af þessum samningi en þar var að ræða valrétt á hlut í Exista að verðmæti 11,4 milljörðum króna.

„Varð úr að Skúla Þorvaldssyni var boðið að taka yfir bæði kaup- og söluréttarsamningana í Exista sumarið 2007,“ sagði Hreiðar Már á mánudaginn og Hörður endurtók það í dag. Hörður sagði að á þeim tíma hafi verið mikil ágóðavon af samningnum en í kjölfar þess að verð á bréfum Exista féll hafi staða Marple hríðversnað.

Varð úr að þann 22. október undirritaði Hreiðar Már söluréttarsamning fyrir hönd Kaupþings sem tryggði Marple fyrir lækkun hlutabréfa í bankanum. Ágóði af þessum samning varð rúmir þrír milljarðar króna sem voru lagðar inn á Marple í desember 2007.

„Málið snýr því svona; Marple kaupir hlutabréf í Exista fyrir 11,4 milljarða sem Kaupþing fjármagnar. Á það leggjast rúmir 1,6 milljarðar í vexti. Verð á stökum hlut féll hins vegar úr 34,4 krónum niður í fimm krónur og eignin varð í raun verðlaus,“ sagði Hörður Felix.

„Af hverju ætti Hreiðar að stela fé af eigin banka?“

Saksóknari í málinu hefur haldið því fram að í raun hafi enginn tvíhliða samningur verið gerður en hann hefur aldrei fundist. Ákærðu Hreiðar Már og Guðný Arna hafi fært féð einhliða til Lúxemborgar og þaðan hafi það runnið til Marple og í kjölfarið hafi þau útbúið gögn til að reyna að hylja slóð sína líkt og Arnþrúður kom inn á í málflutningsræðu sinni. Því sé um fjárdrátt að ræða í máli þessu. Þessum málflutningi var mótmælt harðlega af hálfu Harðar.

„Til að háttsemi geti talist fjárdráttur verður hún að vera framkvæmd í auðgunarskyni. Því skilyrði er ekki fullnægt í máli þessu því hvernig átti skjólstæðingur minn að geta auðgast á brotinu? Og líkt og Hreiðar kom inn á í skýrslutöku, af hverju hefði hann átt að stela fé af eigin fyrirtæki til að félag í eigu einhvers annars manns myndi hagnast? Um þetta var aldrei spurt hér fyrir dómi enda ekkert svar til við þessum spurningum,“ staðhæfði Hörður.

Hann hafnaði einnig þeim málflutningi sækjanda að samning sem þennan hefði þurft að verja innan bankans þar sem áhættan af honum hafi engin verið. Ef allt hefði farið á versta veg væri Kaupþing eini kröfuhafinn á Marple og samningurinn í raun gerður í þeim eina tilgangi að verja bankann.

„Bankinn átti í raun þetta félag fyrir og var með það í vasanum. Það er deginum ljósara að ef í ljós kemur að eignarhald á Marple var með þeim hætti sem Skúli hefur haldið fram hér fyrir dómi þá var enginn þriðji aðili. Bankinn var þá aðeins að færa peninga úr hægri vasa sínum yfir í þann vinstri,“ sagði Hörður.

Báru hagsmuni bankans fyrir brjósti einn daginn en stela frá honum þann næsta?

Verjandinn benti einnig á „hróplegt ósamræmi“ í málflutningi sérstaks saksóknara. Fyrr á árinu var stóra markaðsmisnotkunarmálið flutt fyrir sama dómstóli og hélt saksóknari því fram að í því máli hefðu stjórnendur bankans reynt að blekkja markaðinn með því að reyna að keyra upp verð á bréfum hans.

„Nú hins vegar, örfáum mánuðum síðar, þá eru þeir sakaðir um að stela frá þeim sama banka. Hvernig gengur það upp? Hvernig geturðu haft gífurlegra hagsmuna af því að honum gangi vel einn daginn en þann næsta ertu sakaður um að stela átta milljörðum frá honum? Þetta, kæri dómur, gengur einfaldlega ekki upp.“

Verjandinn benti að auki á hvernig staðið hefði verið að málarekstri málsins. Gögnum hefði verið haldið frá sakborningum auk þess sem annmarkar hafi verið á framkvæmd símhlustanna líkt og vitnið Jón Óttar hefði staðfest fyrir dómi. Hið sama hafi lögreglumennirnir Hinrik Pálsson og Sveinn Ingiberg Magnússon gert er lýstu hvernig símhlustunum hefði verið háttað á meðan rannsókn málsins stóð.

„Þeirri fullyrðingu ákæruvaldsins um að skjólstæðingur minn hafi breytt framburði milli yfirheyrslna og fyrir dómi er einnig mótmælt,“ sagði Hörður. Hann sagði að mannshugurinn virkaði einfaldlega þannig að það væri erfitt að rifja upp án allra hjálpargagna atvik sem hefðu átt sér stað fyrir mörgum árum. „Hins vegar eftir að Hreiðar hafði skoðað gögnin sem lágu fyrir og rifjað málið betur upp hefur hann getað sagt frá atvikum málsins eins og þau áttu sér stað.“

Verknaðurinn minnkaði tap Kaupþings en olli ekki tjóni

Í lok árs 2008 námu skuldir Marple alls 4,6 milljörðum króna en eini kröfuhafinn var Kaupþing. Hörður benti á að á þeim tíma sem hin meintu brot áttu að hafa átt sér stað hafi enginn arður verið greiddur úr félaginu og engir peningar farið úr því.

„Það eina sem þessi atvik höfðu í för með sér var að tjón Kaupþings vegna Marple varð 4,6 milljarðar en hefðu ellegar, ef ekkert hefði verið gert, numið allt að þrettán milljörðum,“ sagði Hörður og mótmælti öllum skatabótakröfum á hendur skjólstæðingi sínum af þeim sökum og sagði hana setta fram gegn betri vitund Kaupþings hf.

Að endingu krafðist hann sýknu en ef svo færi að sök þætti sönnuð krafðist hann þess að hegningarauki yrði ekki dæmdur. Það væri ekki nokkurt tilefni til þess að bæta við þá refsingu sem Hreiðar Már hefði nú þegar hlotið en hann var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi í Al-Thani málinu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×