Enski boltinn

Samherji Jóa Berg: Lærði meira á mánuði hjá Charlton en á tveimur árum hjá West Ham

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alou Diarra brýtur á Javier Hernández í leik gegn Manchester United.
Alou Diarra brýtur á Javier Hernández í leik gegn Manchester United. vísir/getty
Franski knattspyrnumaðurinn Alou Diarra sem er samherji Jóhanns Berg Guðmundssonar hjá Charlton gagnrýnir spilamennsku úrvalsdeildarliðsins West Ham harkalega.

Diarra var tvær leiktíðir á mála hjá West Ham undir stjórn Sams Allaryce, en seinni hluta seinna tímabilsins var hann á láni hjá Rennes í Frakklandi.

Hann spilaði aðeins sex leiki fyrir West Ham og talar ekki fallega um félagið og leikstílinn í nýrri leikskrá Charlton.

„Fyrsta upplifun mín á Englandi var erfið því ég spilaði ekki marga leiki fyrir West Ham,“ segir Diarra.

„Ég stóð mig vel á æfingum en þarna var bara ekki spilaður fótbolti. Þeir spiluðu mikið af háum og löngum sendingum en fyrir mér er það of auðvelt.“

„Ef maður er ekki fyrsti kostur hjá stjóranum þarf maður að bíða eftir að einhver meiðist til að fá tækifæri, en meira að segja þegar það gerðist komst ég ekki í liðið. Þetta er samt allt í fortíðinni.“

„Ég lærði ekkert á tveimur árum hjá West Ham. Ég lærði meira í síðasta mánuði hjá Charlton því við reynum að spila fótbolta. Við höldum boltanum og fyrir mér er það fótbolti,“ segir Alou Diarra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×