Enski boltinn

Rodgers: Kerfið er ekkert að klikka - við erum bara ekki að spila nógu vel

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Brendan Rodgers þarf á sigri að halda í kvöld.
Brendan Rodgers þarf á sigri að halda í kvöld. vísir/getty
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, segir síðustu töp í deildinni ekki því um að kenna að önnur lið hafi fundið leið framhjá leikkerfi Liverpool-manna.

Eftir að Brendan Rodgers skipti í 3-4-2-1 um miðjan desember tapaði liðið ekki í 13 leikjum í röð í ensku úrvalsdeildinni, en sú hrina kom liðinu aftur í baráttuna um Meistaradeildarsæti.

Liðið hefur aðeins hikstað í síðustu leikjum, en það tapaði fyrir Manchester United á Anfield og fékk svo skell um helgina gegn Arsenal, 4-1.

„Þetta snýst ekkert um að kerfið sé að klikka. Við bara byrjuðum ekki nógu vel á móti Arsenal og það skiptir engu máli hvaða kerfi þú ert að spila þegar það gerist,“ sagði Rodgers á blaðamannafundi fyrir bikarleik liðsins gegn Blackburn í kvöld.

„Í síðustu fjórum leikjum höfum við ekki skapað okkur nóg af færum. Það er bara okkur sjálfum að kenna.“

B-deildarlið Blackburn náði markalausu jafntefli á Anfield í átta liða úrslitum bikarsins og endurtekinn leikur liðanna fer fram á Ewood Park í kvöld.

„Við höfum ekki skapað nóg af færum síðan við mættum Blackburn. Það er eitthvað sem við þurfum að laga. Við þurfum að skapa okkur færi og nýta þau,“ sagði Rodgers.

„Þetta er erfitt kerfi að spila á móti, en þetta er samt bara eitt af þeim kerfum sem við höfum notað og spilað það mjög vel,“ sagði Brendan Rodgers.

Leikur Blackburn og Liverpool er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD klukkan 18.40 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×