Enski boltinn

Fowler: Þetta snýst ekki allt um Steven Gerrard

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Steven Gerrard verður ekki með í kvöld vegna leikbanns.
Steven Gerrard verður ekki með í kvöld vegna leikbanns. vísir/getty
Á Anfield dreymir mönnum um að senda fyrirliðann Steven Gerrard út í sólarlagið með enska bikarmeistaratitlinn.

Liverpool mætir Blackburn á útivelli í kvöld í endurteknum leik í átta liða úrslitum enska bikarsins, en liðin skildu jöfn, markalaus, á Anfield.

Draumur Liverpool-manna er að sjá Steven Gerrard, leikmann liðsins til 17 ára og fyrirliða til tólf ára, lyfta enska bikarnum á Wembley í sínum síðasta leik fyrir félagið áður en hann heldur til Bandaríkjanna.

Robbie Fowler, goðsögn í lifanda lífi hjá Liverpool, segir liðið þó ekki mega hugsa bara um að vinna bikarinn fyrir Gerrard heldur sé mikilvægt fyrir félagið að vinna bikarinn sem það hefur ekki unnið síðan 2006.

„Allir myndu elska ef Gerrard vinnur bikarinn í sínum síðasta leik og vonandi gerist það,“ segir Fowler í viðtali við knattspyrnuvefinn Goal.com.

„Liverpool má samt ekki koma sér í þá stöðu að það sé að vinna bikarinn bara fyrir Steven Gerrard. Það verður að vina bikarinn fyrir alla einstaklingana í liðinu og félagið. Þannig á þetta að vera.“

„Í fullkomnum heimi vinnur Liverpool bikarinn og enginn myndi elska það meira en ég. Steven verðskuldar að hætta á toppnum en liðið verður að vinna bikarinn fyrir sjálft sig. Þetta snýst ekki bara um Steven Gerrard,“ segir Robbie Fowler.

Steven Gerrard verður ekki með Liverpool í kvöld þar sem hann tekur út annan leikinn af þremur í banninu sem hann fékk fyrir rauða spjaldið gegn Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×