Innlent

Segir Má gefa grænt ljós á verðhækkanir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ólafía B. Rafnsdóttir vill að Már Guðmundsson bíða heldur eftir áhrifum kjarasamninganna og grípa þá inn í með aðgerðum.
Ólafía B. Rafnsdóttir vill að Már Guðmundsson bíða heldur eftir áhrifum kjarasamninganna og grípa þá inn í með aðgerðum. VÍSIR/VR/GVA
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, hnýtir í Má Guðmundsson seðlabankastjóra fyrir að gefa fyrirtækjum „grænt ljós á að hækka verð og fela sig á bak við það að laun hafi hækkað of mikið”. Þá sakar hún Seðlabankann einnig um að hafa talað talað óvarlega um áhrif launahækkana umfram 3,5%  og segir bankann hafa leikið lykilþátt í því að verðbólguvæntingar hafa rokið upp að undanförnu.

Þetta kemur fram í harðorði yfirlýsingu sem Ólafía sendi frá sér í dag. Tilefnið er viðtal við Má sem birtist síðastliðinn föstudag, skömmu eftir að nýir kjarasamningar voru undirritaðir á hinum almenna vinnumarkaði. Í viðtalinu sagði seðlabankastjóri að honum þætti ólíklegt að fyrirtæki í landinu gætu heilt yfir tekið á sig hina nýju kjarasamninga og því myndi verðlag í landinu að öllum líkindum hækka.

Ólafía segir þessi orð Más í andstöðu við það sem kemur fram í nýjastas hefti Peningamála, riti Seðlabankans, þar sem greint er frá niðurstöðum könnunnar Gallup um væntingar stjórnenda.

VÍSIR/GVA
„Samkvæmt þeim eru stjórnendur bjartsýnir um þróun framlegðar (EBITDA) á næstu sex mánuðum og hefur bjartsýni þeirra ekki mælst meiri á þessum mælikvarða síðan í febrúar 2007. Þar segir einnig að þetta gæti verið vísbending um að fyrirtæki hafi nokkurt svigrúm til að taka á sig kostnaðarhækkanir án þess að velta þeim út í verðlag eða hægja á ráðningum. Það er því töluvert ósamræmi í orðum seðlabankastjóra og svörum stjórnenda fyrirtækja um getu fyrirtækjanna til að taka á sig aukinn kostnað,” segir Ólafía í tilkynningunni.

Hún bætir við að „þær atvinnugreinar þar sem starfsfólk er alla jafna á lægri launum eru einnig í þeirri stöðu að laun og tengd gjöld eru lágt hlutfall af heildarkostnaði, eða um 10%. Sérstök hækkun lægstu launa ætti því ekki að þurfa að leiða til þess að verðlag hækki mikið.”

Þá telur Ólafía allt stefna í að stýrivextir Seðlabankans verði hækkaðir á næstunni og segir hún ástæðu þess megi að miklu leyti rekja til orðræðu bankans í fjölmiðlum síðan samningarnir voru undirritaðir fyrir helgi.

„Þannig hefur Seðlabankanum tekist að hækka þær væntingar sem hann vill halda niðri. Nú stefnir því allt í að Seðlabankinn muni hækka vexti til að ná niður væntingum sem hann hefur sjálfur tekið þátt í að þrýst upp á við. Skynsamlegra væri að bíða eftir áhrifum kjarasamninganna og grípa þá inn í með aðgerðum, ef þörf krefur,“ segir Ólafía en yfirlýsinguna í heild sinni má nálgast með því að smella hér




Fleiri fréttir

Sjá meira


×