Innlent

Viðbúnaður vegna jarðhræringa við Bárðarbungu færður niður á óvissustig

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frá eldsumbrotunum í Holuhrauni
Frá eldsumbrotunum í Holuhrauni vísir/valli
Ríkislögreglustjóri í samráði við Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra færa viðbúnaðarstig almannavarna vegna jarðhræringa í Bárðarbungu af hættustigi niður á óvissustig. Óvissustig almannavarna þýðir að eftirlit er haft með atburðarrás sem gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað.

Ákvörðunin er tekin í samræmi við hættumat Veðurstofu Íslands og mælingar sem sýna að dregið hefur töluvert úr skjálftavirkni og GPS færslum. Enn er þó aukin jarðhitavirkni í Bárðarbungu sem getur leitt til söfnunar á bræðsluvatni og minni jökulhlaupum í Jökulsá á Fjöllum. Nýlegar mælingar sýna að gasmengun á svæðinu í og við Holuhraun er almennt undir hættumörkum. Lokun lögreglu á svæðinu er aflétt.

Þær stofnanir sem fylgst hafa með svæðinu munu fram á haust sinna sérstöku eftirliti með því. Vatnajökulsþjóðgarður hefur umsjón með svæðinu og stefnir að því að veita aðgang að hrauninu eftir merktum gönguleiðum. Að öðru leyti verður umferð um hraunið óheimil, vegna náttúruverndar- og öryggissjónarmiða, en hraunið er víðast illfært.

Umhverfi á Flæðunum hefur breyst mikið í eldsumbrotunum og óljóst er hvernig leysingarvatn frá Dyngjujökli finnur sér farveg á ný. Auk þess rann hraunið yfir veginn sem liggur um Flæður og því eru ferðaleiðir breyttar. Ferðafólk er því hvatt til þess að kynna sér hvernig umferð um svæðið verður háttað í sumar hjá Vatnajökulsþjóðgarði.


Tengdar fréttir

Eldgosinu í Holuhrauni er lokið

Vísindamannaráð almannavarna fundaði í morgun vegna umbrotanna í Bárðarbungu og var niðurstaða fundarins að eldgosinu, sem hófst 31. ágúst 2014 í Holuhrauni væri lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×