Innlent

Dæmt að bann við blóðgjöf brjóti í bága við mannréttindaskrá ESB

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Samkynhneigðir karlmenn mega ekki gefa blóð á Íslandi.
Samkynhneigðir karlmenn mega ekki gefa blóð á Íslandi.
Í síðustu viku féll dómur hjá Evrópudómstólnum í svo kölluðu Léger-máli þar sem segir að blátt bann í franskri löggjöf við blóðgjöf samkynhneigðra kunni að brjóta í bága við Mannréttindaskrá ESB, þar sem mismunun byggð á kynhneigð er bönnuð.

Í dómnum kemur fram að endanlegt svar velti á því hvort bannið virði meðalhófsregluna. Það þýðir að bann við blóðgjöf eigi ekki að ganga lengra en þörf er á til að tryggja almannaheilbrigði. Slíkt bann gæti staðist ef ekki er hægt að koma í veg fyrir mikla áhættu á smiti með nútímatækni eða ef faraldur HIV-smits hjá samkynhneigðum er í samfélaginu.

Samkynhneigðum karlmönnum er bannað að gefa blóð á Íslandi og voru þau lög sett vegna alnæmisfaraldurs snemma á níunda áratugnum.

Dr. Gunnar Þór Pétursson, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík.
Varla er hægt að tala um faraldur HIV-smits hjá samkynhneigðum á Íslandi í dag en árið 2014 smituðust tíu af HIV á Íslandi og samkvæmt nýjustu tölum um dreifingu veirunnar smitast HIV í 38 prósentum tilfella vegna kynmaka samkynhneigðra karlmanna, sem er sama hlutfall og smitast vegna kynmaka gagnkynhneigðra. 

Dr. Gunnar Þór Pétursson, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, segir að til grundvallar í málinu liggi frönsk löggjöf sem byggir á ESB-tilskipun sem einnig sé hluti af EES-samningnum. 

„Þannig má segja að sambærileg sjónarmið kynnu að geta komið til skoðunar hér á landi. Hins vegar þarf að hafa í huga að Mannréttindaskrá ESB, sem í málinu gegnir lykilhlutverki, er ekki hluti af EES-samningnum. Sú staðreynd skapar ákveðna togstreitu í EES-réttinum sem enn hefur ekki verið leyst úr fullkomlega – sérstaklega þar sem EFTA-ríkin hafa enn ekki tekið afstöðu til stöðu Mannréttindaskrárinnar í EES-réttinum," segir Gunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×