Innlent

Meirihluti andvígur því að draga aðildarumsókn til baka

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá mótmælum sem haldin voru í seinasta mánuði til að mótmæla ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að draga aðildarumsóknina til baka.
Frá mótmælum sem haldin voru í seinasta mánuði til að mótmæla ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að draga aðildarumsóknina til baka. Vísir/Vilhelm
Meirihluti landsmanna er andvígur því að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu verði dregin til baka, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallups. Frá þessu var greint í kvöldfréttum RÚV.

Um 39 prósent sem tóku afstöðu sögðust hlynnt því að aðildarumsóknin sé dregin til baka en 51 prósent sögðust vera á móti því. Þá sögðust 10 prósent aðspurðra hvorki andvíg né hlynnt því að draga umsóknina til baka.

Þegar spurt var um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við ESB sögðust 65 prósent þeirra sem tóku afstöðu hlynnt því að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram. Um 24 prósent sögðust andvíg þjóðaratkvæðagreiðslu en 12 prósent sögðust hvorki hlynnt né andvíg.

Þó nokkur munur er á afstöðu fólks eftir því hvaða stjórnmálaflokk það segist styðja. Þannig er mikill meirihluti kjósenda Framsóknarflokksins (88%) og Sjálfstæðisflokksins (76%) hlynntur því að draga umsóknina til baka. Aðeins sex prósent kjósenda Samfylkingarinnar vilja svo draga umsóknina til baka og hjá kjósendum annarra flokka á þingi var hlutfallið á milli 14 og 19 prósent.


Tengdar fréttir

Enn tekist á um innihald bréfs utanríkisráðherra

Utanríkisráðherra telur að umsóknarferli Íslands að ESB sé að fullu lokið. Stjórnarandstaðan er ósammála og telur ferlið í gangi. Ráðherra var sakaður um að fara gegn þingræðinu og vilja takmarka málfrelsi þingmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×