Erlent

Germanwings 4U 9525: Seinni flugriti vélarinnar loks fundinn

Atli Ísleifsson skrifar
Flugriti vélarinnar sem innihélt hljóðupptökur úr flugstjórnarklefanum fannst fljótlega í hlúðum fjallsins.
Flugriti vélarinnar sem innihélt hljóðupptökur úr flugstjórnarklefanum fannst fljótlega í hlúðum fjallsins. Vísir/AFP
Seinni flugriti vélar Germanwings sem var grandað í frönsku Ölpunum í síðustu viku er fundinn. Saksóknari í Marseille hefur greint frá þessu.

Flugriti vélarinnar sem innihélt hljóðupptökur úr flugstjórnarklefanum fannst fljótlega, líkt og skel seinni flugritans, en seinni flugritinn sjálfur er nú loks fundinn.

Rannsakendur vonast til að flugritinn sé ekki svo skemmdur að ekki sé hægt að sækja úr honum gögn um flughraða vélarinnar, stefnu, hæð og þau skilaboð sem send voru sem myndu öll hjálpa til við rannsókn málsins.

Hljóðupptökur bentu til þess að flugmaðurinn Andreas Lubitz hafi grandað vélinni viljandi, en 150 manns fórust.

Í frétt BBC kemur fram að þýskir saksóknarar hafi nú greint frá því að Lubitz hafi rannsakað á netinu leiðir til að fyrirfara sér og öryggismál sem snúa að dyrum inn í flugstjórnarklefa. Rannsakendur hafi fundið spjaldtölvu á heimili Lubitz og skoðað hvaða netsíður hann hafi heimsótt.

Þá hefur verið greint frá því að hann hafi leitað aðstoðar fimm mismunandi lækna síðustu mánuði.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×