Enski boltinn

Sterling: Snýst ekki um peninga

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sterling hefur verið frábær fyrir Liverpool.
Sterling hefur verið frábær fyrir Liverpool. vísir/getty
Raheem Sterling, framherji Liverpool, hefur mikið verið í umræðunni undanfarnar vikur. Framherjanum unga hefur verið boðinn nýr samningur, en hann hefur ekki enn samþykkt hann. Það fellur misvel í kramið hjá stuðningsmönnum Liverpool.

Stórlið á borð við Manchester City, Arsenal, Real Madrid og Bayern Munchen eru öll sögð áhugasöm um þennan unga og spennandi leikmann. Sterling var á dögunum boðinn nýr samningur og sagði meðal annars Brendan Rodgers, stjóri Liverpool, að þetta væri enn stærsti samningur sem ungum leikmanni hafi verið boðið.

„Þetta snýst ekki um peninga. Þetta hefur aldrei snúist um peninga. Ég vil vinna titla á mínum ferli. Það er það sem ég hugsa um,” sagði hinn ungi enski landsliðsframherji við BBC.

„Ég tala ekki um hversu mörgum bílum ég keyri um á, hversu mörg hús ég á. Ég vil einungis verða eins góður og ég get orðið. Ég vil ekki að það sé litið á mig sem tvítugan mann sem hugsar bara um peninga.”

Liverpool var í mikilli baráttu á síðasta tímabili við Manchester City um Englandsmeistaratitilinn. Sterling segir að hafi honum verið boðið samningur á þeim tímapunkti hefði hann líklega skrifað strax undir.

„Ef að mér hefði verið boðinn nýr samningur á þeim tímapunkti hefði ég líklega skrifað undir þann samning án þess að hugsa fyrir mun minni pening en talað er um núna.”

Liverpool á möguleika á einum bikar á þessu tímabili, en það er FA-bikarinn. Liverpool spilar gegn Blackburn í endurteknum leik í næstu viku, en vinni þeir hann eru þeir komnir í undanúrslitin. Þá mæta þeir Aston Villa, en sá leikur fer fram á Wembley þann 19. apríl.

„Ég vil vinna eitthvað á þessu tímabili og að vinna FA-bikarinn er góður möguleiki,” sagði Sterling að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×