Framkvæmdir hófust í dag á Vodafone-vellinum en ákveðið var fyrr á árinu að skipta út grasinu fyrir gervigras í ljósi þess að félagið átti inni gervigrasvöll frá Reykjavíkurborg vegna samnings við borgina um sölu lands sem var áður í eigu Vals.
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Valsmanna, sagði í viðtali við Borgunarmörkin að hann væri hlynntur breytingunni en leikmenn Vals léku síðustu leikina á grasinu í síðustu viku. Vann kvennalið Vals öruggan 3-1 sigur á KR en í karlaflokki töpuðu Valsmenn nokkuð óvænt 0-1 fyrir Víking á laugardaginn.
Áætluð verklok eru 1. október næstkomandi og gæti því lokaleikur Vals í Pepsi-deild karla farið fram á vellinum en Valur tekur á móti Stjörnunni í lokaumferðinni. Fram að því munu karla- og kvennaliðin leika í Laugardalnum en Valur lék einmitt í Laugardalnum síðast þegar liðið varð Íslandsmeistari í karlaflokki árið 2007.
