Erlent

Charlie Hebdo birtir skopmynd af Aylan Kurdi á forsíðu

Atli Ísleifsson skrifar
Ljósmyndir sem teknar voru af líki hins þriggja ára Aylan vöktu heimsathygli eftir að þær voru birtar í fjölmiðlum um allan heim.
Ljósmyndir sem teknar voru af líki hins þriggja ára Aylan vöktu heimsathygli eftir að þær voru birtar í fjölmiðlum um allan heim. Mynd/Twitter/Getty
Franska tímaritið Charlie Hebdo er með skopmynd af sýrlenska drengnum Aylan Kurdi þar sem hann liggur látinn í sjávarmálinu í Tyrklandi á forsíðu nýjasta tölublaðs síns.

Myndbirtingin hefur vakið viðbrögð, meðal annars á samfélagsmiðlum. Átta mánuðir eru nú liðnir frá árásunum á ritstjórnarskrifstofu blaðsins þar sem tólf létust.

Ljósmyndir sem teknar voru af líki hins þriggja ára Aylan vöktu heimsathygli eftir að þær voru birtar í fjölmiðlum um allan heim.

Á forsíðu blaðsins er að finna textann „Velkomnir flóttamenn!“ Fyrir ofan myndina af Aylan stendur „Svo nálægt markinu en...“, auk þess að á ströndinni er að finna skilti með mynd af trúði og skilaboðunum „Tilboð! Tvær barnamáltíðir á verði einnar.“

Á annarri útgáfu forsíðunnar er að finna mynd af Jesú og drukknuðu barni með textanum „Sönnun þess að Evrópa er kristin. Kristnir ganga á vatni – múslímsk börn drukkna.“

Fjölskylda Aylan var á flótta frá borgarastríðinu í Sýrlandi, en faðir Aylan komst einn lífs af eftir að bátur þeirra sökk þegar honum var siglt frá Tyrklandi á leið til grísku eyjarinnar Kos. Auk Aylan, fórst bróðir hans og móðir á leiðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×