Lífið

Mæta ekki á Samvest fyrst Óli Geir spilar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
"Þegar unglingar í Strandabyggð eru annars vegar tökum við upplýstar og öruggar ákvarðanir eingöngu,“ segir tómstundafulltrúinn á Hólmavík.
"Þegar unglingar í Strandabyggð eru annars vegar tökum við upplýstar og öruggar ákvarðanir eingöngu,“ segir tómstundafulltrúinn á Hólmavík.
Tómstundafulltrúi Strandabyggðar segir að unglingar á Hólmavík muni ekki mæta á Samvest, undankeppni Samfés í Bolungarvík á föstudaginn, ef fram fer sem horfir að plötusnúðurinn Óli Geir Jónsson spili þar. Þess í stað muni þau taka þátt í undankeppninni á Vesturlandi. Bæjarins besta greinir frá. 

Í morgun var greint frá því að Óli Geir hefði verið afbókaður á Samvest. Hann var ekki sáttur við þá ákvörðun og sagðist reglulega vera afbókaður vegna fortíðar sinnar.

„Það sorglega við þetta er að þessir aðilar eiga að kenna krökkum að fyrirgefa, allir eiga skilið annan séns, batnandi mönnum er best að lifa og allir gera mistök, eins og ég gerði með eitthvað Dirty Night partý þegar þessir unglingar í dag voru í bleyju,“ sagði Óli Geir.

Á fjórða tímanum sendi Benedikt Sigurðsson, rekstraraðili félagsheimilisins í Bolungarvík, frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að DJ Óli Geir myndi spila á Samvest eftir allt saman.

„Og bíðum við mjög spennt, enda einn fremsti og þekktasti plötusnúður landsins. Það verður einnig að kenna börnunum að læra að fyrirgefa og að það er allt í lagi að skipta um skoðun, ef sannfæring manns segir manni það. Við getum ekki tekið manneskjur af lífi fyrir sögusagnir.“

Hafa stuðning frá Samfés

Esther Ösp Valdimarsdóttir, tómstundafulltrúi Strandabyggðar, segir í samtali við BB að ákvörðun hafi verið tekin um að sniðganga undankeppnina í Bolungarvík og keppa á Vesturlandi.

„Ég tók þá ákvörðun, með stuðningi Ozon-ráðs (Félagsmiðstöðvarinnar á Hólmavík) og eftir að hafa ráðfært mig við fjölmarga fagaðila, foreldra og áhugasama, að við vildum ekki fara á ball með Óla Geir,“ segir Esther.

Hún segist hafa stuðning Samféss og segi vel geta verið að Óli Geir sé á beinu brautinni og jafnvel talist góð fyrirmynd.

„Hins vegar hefur hann staðið fyrir vafasömum skemmtunum þar sem gert er út á að karlmenn skemmti sér á kostnað kvenna eða stúlkna á óræðnum aldri. Í samhengi m.a. Dirty Night voru konur ítrekað lítillækkaðar á ósmekklegan hátt og hann, sem ekki var aðeins DJ heldur skipuleggjandi, skammaðist sín ekki fyrir það.“

Esther segir að eingöngu séu teknar upplýstar og öruggar ákvarðanir þegar unglingar í Strandabyggð séu annars vegar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×