Lífið

Elvis Presley hefði orðið áttatíu ára gamall í dag

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Þrátt fyrir að Elvis hafi látist árið 1977 er hann enn á meðal söluhæstu tónlistarmanna heims.
Þrátt fyrir að Elvis hafi látist árið 1977 er hann enn á meðal söluhæstu tónlistarmanna heims. vísir/getty
Stórsöngvarinn Elvis Presley fæddist þann áttunda janúar árið 1935 og hefði því orðið áttræður í dag. Presley fæddist í borginni Tupelo í Mississippi-fylki í Bandaríkjunum. Hann lést 42 ára að aldri, í borginni Memphis í Tennessee.

Elvis var mikið kyntákn.Vísir/Getty
Mikill fjöldi laga

Presley þarf vart að kynna fyrir neinum, hann er ein skærasta stjarna tónlistarsögunnar, oft nefndur „konungur rokksins“. Tónlistarferill hans hófst fyrir alvöru árið 1954 þegar hann tók upp lag með upptökustjóranum Sam Phillips í Bandaríkjunum. Presley gerði hina svokölluðu „rockabilly“ tónlist mjög vinsæla. Óljóst er hversu mörg lög Presley gaf út, þau eru á bilinu 665 til 711. Mikill fjöldi breiðskífa og lagaPresley náðu efsta sæti á vinsældarlista víða um heim. Fyrsta platan sem náði fyrsta sæti Billboard-listans bandaríska kom út árið 1956 og sú síðasta sem náði efsta sætinu kom út árið 2002. Sú tölfræði varpar ljósi á hversu vinsæll Presley hefur verið í gegnum tíðina.

Auk þess að syngja og leika rokklög fyrir almenning gegndi Presley herþjónustu. Hann var skráður í herinn árið 1958 og var þar til ársins 1960. Það vakti gríðarlega athygli víða um heim þegar hann gekk í herinn.



Tímamótanna minnst

Þessum tímamótum verður minnst næstu daga í heimaborg hans Memphis, í Tennessee og ekki síst á búgarðinum Graceland þar sem Elvis bjó síðustu æviárin. 

Á meðal þess sem stendur til að gera er að halda uppboð á munum úr dánarbúi söngvarans og þar á meðal er fyrsta ökuskírteini stjörnunnar og fyrsta upptakan sem hann gerði. 

Þrátt fyrir að Elvis hafi látist árið 1977 er hann enn á meðal söluhæstu tónlistarmanna heims.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×