Innlent

Komur á bráðamóttöku vegna sjálfsskaða jukust rétt fyrir hrun

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að ungum konum líður verr í kjölfar hrunsins og komum þeirra á bráðamóttöku vegna sjálfsskaða fjölgar.
Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að ungum konum líður verr í kjölfar hrunsins og komum þeirra á bráðamóttöku vegna sjálfsskaða fjölgar. Vísir
Hildur Guðný Ásgeirsdóttir, sjúkraþjálfari og doktorsnemi í lýðheilsuvísindum, kynnti fyrstu niðurstöður úr doktorsrannsókn sinni á ráðstefnu í líf-og heilbrigðisvísindum í Háskóla Íslands í gær.

„Í rannsókninni erum við að skoða allar komur á bráðamóttöku Landspítalans og allar innlagnir á spítalann vegna sjálfsskaða á tíu ára tímabili, frá 2003 til 2012. Ég skipti tímabilinu síðan í tvennt þarna við 6. október 2008 og hyggst skoða hvort og þá hvaða áhrif kreppan hefur haft á komur á bráðamóttöku vegna sjálfsskaða. Inni í því eru eitranir, eigin saga um sjálfsskaða og greiningar sem kallast vísvitandi sjálfskaði,“ segir Hildur.

Leiðbeinandi Hildar, Arna Hauksdóttir, dósent í lýðheilsuvísindum, hefur mikið rannsakað áhrif áfalla á andlega líðan og sýna rannsóknir hennar að streita hefur aukist í samfélaginu eftir hrun, sérstaklega meðal kvenna. Hildur segir að fyrstu niðurstöður úr rannsókn sinni benda til þess sama:

„Aðalniðurstöðurnar benda til vissrar aukningar fyrir hrun og að þær nái toppi í lok árs 2007 og í byrjun 2008, sérstaklega á meðal karla. Það kom okkur á óvart, og að sama skapi það að komum karla fór mikið fækkandi eftir hrun.“

Hildur segir að þær hafi síður átt von á þeim niðurstöðum þar sem erlendar rannsóknir hafa sýnt að það sé aukin áhætta á sjálfsvígstilraunum eftir efnahagshrun. Hún segir tengsl við atvinnuleysi meðal annars sýna að karlar séu í aukinni áhættu á að líða verr.  

„Við sjáum hins vegar að ungum konum líður verr og það er aukning í komum þeirra á bráðamóttöku vegna sjálfsskaða. Við getum ekki áætlað neitt strax út frá þessum niðurstöðum en rannsóknin sem Arna gerði á streitu sýndi þó einnig að konur eru í auknum áhættuhópi og upplifa meiri streitu. Þannig að við sjáum hreyfingu þarna á meðal ungra kvenna.“

Heildarfjöldi koma á bráðamóttöku var tæplega 5.200 á því tíu ára tímabili sem Hildur skoðar og hún segir heildarfjölda koma á árunum fyrir og eftir hrun vera nokkuð svipaðan. Hins vegar sé munurinn merkjanlegur á fjölda þeirra sem koma eftir kyni og aldri og að það sem helst komi á óvart sé toppurinn í komum fyrir hrun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×