Handbolti

Snorri Steinn: Þegar ég kem heim og þjálfa ykkur í meistaraflokki | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson.
Snorri Steinn Guðjónsson. Vísir/Valli
Landsliðsmaðurinn Snorri Steinn Guðjónsson er mikill Valsmaður og hann sýndi það í verki þegar hann kom og stýrði æfingu hjá 4. flokki Valsmanna á dögunum. Þorgeir Símonarson tók upp æfinguna, bjó til myndband og setti inn á Youtube.

Snorri Steinn er á fullu að undirbúa sig fyrir HM í Katar sem hefst seinna í þessum mánuði en Snorri er nú á sínu fyrsta tímabili með franska liðinu Sélestat AHB.

Valsmenn eru örugglega mjög ánægðir að heyra Snorri Stein segja eitt á æfingunni. 

„Þegar ég kem heim og þjálfa ykkur í meistaraflokki," sagði Snorri Steinn við strákana þegar hann var að ræða við þá um að losa boltann rétt niður í hornið.

Snorri Steinn er einn af þessum leikmönnum sem menn sjá fyrir sér í þjálfun í framtíðinni og það gæti farið að styttast í það enda kappinn að verða 34 ára seinna á þessu ári.

„Strákar þetta var glæsilegt og ég hafði mjög gaman af þessu. Það er laukrétt sem Kári og fleiri segja að þið séuð mjög efnilegir. Það er tvennt ólíkt að vera efnilegur og vera góður. Ég vona að flestir ykkar ætlið ykkur að vera landsliðsmenn og atvinnumenn. Ég var sjálfur í svona hóp eins og þið því við unnum allt og vorum rosalega góðir," sagði Snorri Steinn meðal annars þegar hann talaði við strákana eftir æfinguna.  Þar bætti hann við:

„Það eru örugglega mjög margir hérna sem eiga eftir að spila með meistaraflokki Vals í handbolta og ég hef engar áhyggjur af því. Þegar ég verð þjálfari og við vinnum þetta allt. Það eru örugglega fáir sem eiga eftir að spila landsleiki og það eru enn færri, færri en ykkur grunar, sem eiga að fara alla leið og spila tvö til þrjú hundruð landsleiki og vera atvinnumenn í tíu ár. Það eru samt mjög margir hérna sem geta það en til þess þarf maður að leggja virkilega mikið á sig," sagði Snorri Steinn.

Það er hægt að sjá Snorra Stein á æfingunni og heyra alla ræðuna hans með því að smella hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×