Innlent

Opnað á ný fyrir umferð um Hellisheiði og Þrengsli

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Flughált er á Hellisheiðinni.
Flughált er á Hellisheiðinni. Vísir/Anton
Búið er að opna fyrir umferð um Hellisheiði og Þrengsli þó þar sé enn að finna hálkubletti og þoku. Óveður er á Reykjanesbraut, Grindavíkurvegi og Suðurstrandarvegi, en á Suðurstrandarveginum er einnig flughált.

Þungfært er frá Hafnarfirði að Suðurstrandarveginum. Ófært og Stórhríð á Mosfells- og Lyngdalsheiði. Hálka eða snjóþekja er annars mjög víða á Suður- og Suðvesturlandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Víða ófært og hált á landsbyggðinni

Óveður er á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli. Þungfært með stórhríð er á Fróðárheiði og hvasst. Óveður er víða á norðanverðu Snæfellsnesi. Snjóþekja eða hálka er á flestum leiðum á Vesturlandi og eitthvað um éljagang.

Á Vestfjörðum er ófært um Kleifaheiði en Þæfingsfærð með snjókomu er á Steingrímsfjarðarheiði. Þungfært er á Hálfdáni og Mikladal með stórhríð. Snjóþekja eða hálka á flestum öðrum vegum þar og eitthvað um éljagang.

Á Norðurlandi vestra er hálka eða hálkublettir en mjög víða er orðið greiðfært í Skagafirði. Norðaustanlands eru hálkublettir á köflum en þar er einnig víða orðið greiðfært, einkum við ströndina.

Skil djúprar lægðar fara hratt yfir landið í kvöld og nótt. Það mun hlána á láglendi en á fjallvegum ofan 150-200 metra hæðar má reikna með snjókomu og blindu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×