Sigvaldi Arnar Lárusson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, brá sér í gervi Nostradamusar í aðdraganda kosningarinnar um Íþróttamann ársins. Klukkustund áður en kunngjört var að Jón Arnór Stefánsson varð fyrir valinu í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna hét Sigvaldi því að hlaupa til Hofsóss myndi spá hans ekki rætast.
Sigvaldi spáði því að Gylfi Þór Sigurðsson yrði íþróttamaður ársins, karlalandsliðið í fótbolta lið ársins og þjálfari Stjörnunnar í karlaknattspyrnu þjálfari ársins.
„Hafi ég rangt fyrir mér skal ég hlaupa til Hofsóss næsta sumar“
Reyndar hafði Sigvaldi rétt fyrir sér í flokknum þjálfari ársins því Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, varð hlutskarpastur í kjörinu. Hins vegar var Jón Arnór sem fyrr kjörinn íþróttamaður ársins og karlalandsliðið í körfubolta lið ársins.
Getur aldrei haldið kjafti
Víkufréttir greindu fyrst frá málinu og segir Sigvaldi í samtali við miðilinn að ekki hafi verið mikil meining á bakvið heitið til að byrja með.
„Ég get aldrei hlaupið þetta en ætla að reyna að koma mér á tveimur jafnfljótum bæði með göngu og hlaupum,“ segir Sigvaldi í samtali við VF.
Hann segir líklega ágætt að gera eitthvað gott úr þessu „fyrst hann geti aldrei haldið kjafti“.
Lífleg umræða hefur skapast um málið á Facebook-vegg Sigvalda þar sem hann er byrjaður að útskýra hvernig hann ætli að skipuleggja ferð sína. Fyrsti leggur verður frá Keflavík í Bauhaus, þaðan í Borgarnes, Blönduós, Sauðarkrók og loks Hofsós. Brottför verði í júní eða júlí.
Sigvaldi ætlar að nýta ferðina til að safna fyrir góðum málstað.
Innlent