Erlent

Um fjörutíu drengjum rænt af liðsmönnum Boko Haram

Atli Ísleifsson skrifar
Baráttan gegn liðsmönnum Boko Haram hefur staðið yfir frá 2009.
Baráttan gegn liðsmönnum Boko Haram hefur staðið yfir frá 2009. Vísir/AFP
Liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Boko Haram eru grunaðir um að hafa rænt um fjörutíu drengjum og ungum karlmönnum í áhlaupi á afskekkt þorp í norðausturhluta Nígeríu.

Aðrir íbúar bæjarins Malari í Borno-héraði komu til héraðshöfuðborgarinnar Maiduguri á föstudaginn og sögðu drengina hafa verið numda á brott á gamlársdag.

Boko Haram hefur staðið fyrir árásum í landinu frá árinu 2009 og stefna að því að koma á íslömsku ríki á svæðinu.

Íbúar Malari segja að árásarmennina hafa komið inn í þorpið á bílum sínum og fyrirskipað öllum karlmönnum að safnast saman og hlýða á prédikun. Mönnunum hafi þá verið rænt og farið með þá inn í nálægan skóg.

Í síðasta mánuði gerðu Boko Haram-liðar áhlaup á annað þorp, Gumsuri, og segir einn íbúa að 33 þorpsbúar hafi verið myrtir og um tvö hundruð manns rænt.

Rúmlega tvö þúsund manns létust í árásum liðsmanna Boko Haram í norðausturhluta Nígeríu á síðasta ári.

Liðsmenn Boko Haram rændu um tvö hundruð stúlkum frá heimavistarskóla í Borno í apríl á síðasta ári. Ránið vakti mikla athygli, en þrátt fyrir hernaðarlega aðstoð frá Kína, Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum hefur enn ekki tekist að bjarga stúlkunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×