Lífið

Breytti um lífsstíl: Búin að losna við 18 kg á 12 mánuðum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Dagrún hefur losnað við 18 kíló síðan hún breytti um lífsstíl.
Dagrún hefur losnað við 18 kíló síðan hún breytti um lífsstíl.
Dagrún Þórný Marínardóttir ákvað að breyta um lífstíl eftir prófin í maí síðastlinum. Hún er nú hún átján kílóum léttari, fituprósentan hefur farið niður um fimmtán prósentustig og henni líður betur andlega og líkamlega.  



Dagrún segir okkur á Vísi frá því hvernig hún fór að því að breyta um lífsstíl.

Rosalegur munur! Hér má sjá muninn á Dagrúnu, fyrir og eftir lífsstílsbreytinguna.
Hvenær ákvaðst þú að taka þig í gegn og af hverju? 

Eftir að ég sigraði Söngkeppni Fjölbrautaskólans við Ármúla í febrúar 2014 þá langaði mig til að losa mig við einhver kg áður en ég færi til Akureyrar í Söngkeppni framhaldsskólanna en fékk reyndar hálfgert áfall þegar ég sá portrett-myndina sem var tekin af mér fyrir keppnina en mér tókst reyndar aðeins að losa mig við 2-3 kg fyrir þann tíma.

Hvernig leið þér þegar þú varst sem þyngst?

Síðustu ár er ég búin að vera eins og jójó, tók mig á í 2-3 vikur og féll í sukkið aftur í 2 vikur o.s.frv. Mér leið hörmulega, átti erfitt með að finna almennileg föt sem pössuðu á mig, mjög oft með höfuðverki og alltaf þreytt. Ég var alltaf að reyna að losna við nokkur kg t.d. fyrir jólin, fyrir sumarið eða fyrir útskriftina sem stúdent 2013 en gafst alltaf upp.

Dagrún segist hafa fengið sjokk þegar hún sá þessa mynd.
Hvað gerðirðu þegar þú varst búin að ákveða að breyta um lífsstíl? Hvar byrjaðirðu?

Eftir prófin í maí 2014 þá sagði ég við sjálfan mig „hingað og ekki lengra“. Ég byrjaði að æfa fyrir 10 km hlaupið í Reykjavíkurmaraþoninu og byrjaði í Fitcamp hópi og með hjálp Herbalife-varanna. Ég tók út allt ruslfæði, gos og nammi og auk þess brauð, kartöflur, o.fl

Kom eitthvað þér á óvart varðandi það að breyta um lífsstíl?

Já, hversu auðvelt þetta var eftir að ég byrjaði og hvað hugarfarið skiptir ÖLLU máli.

Hvað er erfiðast við að taka sjálfan sig í gegn? 

Það er alltaf erfiðast að taka ákvörðunina og byrja. Svo þetta smávægilega tímabil sem allt virðist vera stopp eftir góðan árangur að stíga yfir þennan svokallaða „þröskuld“ og halda áfram.

Hvaða árangri ertu búin að ná síðan þú byrjaðir? 

Ég er búin að losa mig við 18 kg á einu ári og 15% í fituprósentu.

Hvernig líður þér núna miðað við hvernig þér leið í „gamla" lífinu? 

Mér líður miklu betur núna bæði andlega og líkamlega en fyrir einu ári síðan, hef miklu meiri orku og úthald. Núna skipulegg ég daginn fyrirfram og útbý máltíðirnar kvöldinu áður og passa mig á að borða á 2-3 tíma fresti.

Hvað viltu segja við þá sem eru að hugsa um að snúa við blaðinu? 

Fyrir þá sem eru að hugsa um að gera eitthvað í sínum málum þá er betra að drífa sig í að framkvæma þá hugsun. Því fyrr sem þú byrjar, því fyrr nærðu þínum markmiðum og ekki bíða eftir næsta mánudegi til að geta byrjað. Fyrst ég get þetta þá getur þú þetta líka. 80% mataræði, 20% hreyfing og 100% hugarfar og ALLS EKKI gefast upp.

Ertu búin að ná öllum þínum markmiðum? Hvert stefnirðu? Hver er draumurinn?

Ég útskrifaðist sem Læknaritari úr Fjölbrautaskólanum við Ármúla þann 20. desember sl. og var búin að stefna að því að losa mig við 16-17 kg fyrir þann tíma og var búin að ná því og meira til í byrjun desember. Mér tókst að klára 10 km hlaupið í Reykjavíkurmaraþoninu sem mér hefði ekki dottið í hug fyrir ári síðan að það myndi takast.

Mín stefna er að halda þessu áfram og falla ekki í sama farið aftur og það SKAL takast.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×