„Þeir eru með frábært lið en alls ekki ósigrandi. Þeir bæta sig með hverjum leik í keppninni og að mæta þeim svona snemma í keppninni gefur okkur bara aukna möguleika. Daniel Narcisse er væntanlega ennþá meiddur og það veikir þá aðeins. Miðað við síðustu ár eru þeir ekki jafn sterkir og á síðustu mótum að minnsta kosti enn sem komið er," segir Gunnar Magnússon í viðtali við Arnar Björnsson.
Íslendingar töpuðu fyrir Frökkum í sextán liða úrslitum á HM á Spáni í hörkuleik sem Frakkar unnu 30-28. Gunnar segir að Frakkar séu ekki jafn sterkir í dag. „En þeir bæta sig yfirleitt þegar líður á keppnina og eru bestir síðustu helgina þegar þeir eru að klára mótin. Leikur okkar við þá á HM fyrir tveimur árum gat endað á hvorn veginn sem var. Við unnum þá á Ólympíuleikunum í London og einnig árið 2007 í Magdeburg þannig að við höfum unnið þá áður á stórmóti og þeir eru alls ekki ósigrandi," segir Gunnar.
Hvar eru veikleikar þeirra?
„Það mæðir mikið á Karabatic í sókninni og hann er sá sem dregur vagninn, sérstaklega þegar á móti blæs. Ef við náum að halda okkar aga í sóknarleiknum og Omeyer lokar ekki markinu og náum að koma okkur í vörnina þá eigum við góðan möguleika," sagði Gunnar en það er hægt að horfa á allt viðtal Arnars við hann hér fyrir neðan.