Lífið

Fékk sendan reikning fyrir að mæta ekki í barnaafmæli

Atli Ísleifsson skrifar
Feðgarnir Derek og Alex Nash með reikninginn.
Feðgarnir Derek og Alex Nash með reikninginn. Mynd/Plymouth Herald
Foreldrar Alex Nash, fimm ára bresks drengs, hafa fengið sendan reikning frá foreldrum vinar drengsins eftir að hann mætti ekki í afmæli vinarins. Málið hefur undið upp á sig og verður tekið fyrir í dómstólum innan skamms.

Í frétt Plymouth Herald segir að Alex búi í bænum Torpoint í Cornwall í suðvesturhluta Englands og hafi verið boðið í veisluna sem fram fór í skíða- og snjóbrettamiðstöð nokkrum dögum fyrir jól. Síðar hafi foreldrar Alex gert sér grein fyrir að Alex kæmist ekki í afmælið þar sem hann hafi verið á leið til ömmu sinnar og afa á sama tíma.

Julie Lawrence, móðir afmælisbarnsins, sendi svo reikning upp á 15,95 pund, eða rúmlega 3.000 krónur, til foreldra Alex þar sem fram kom að fjarvera Alex hafi kostað hana tæp 16 pund. Segir hún að foreldrar Alex hafi verið með allar þær upplýsingar til að hann gæti afboðað sig fyrir afmælið. Faðir Alex, Derek, hafnar því hins vegar að hafa verið með slíkar upplýsingar og hefur neitað að greiða reikninginn sem barst heim í brúnu umslagi í skólatösku Alex. Móðir afmælisbarnsins hefur nú ákveðið að fara með málið til dómstóla, eftir að Derek greindi frá því að þau hugðust ekki borga.

Derek segir þetta hafa verið alvöru reikningur með bankaupplýsingum og fleira. „Ég skil vel að hún sé ekki ánægð með að hafa tapað peningunum. Þetta snýst ekki um peningana, heldur hvernig hún bar sig að við það að ná peningunum frá mér. Hún kom ekki fram við mig eins og manneskju, heldur eins og barn og að ég ætti að gera það sem hún sagði mér að gera.“

Lawrence hefur nú tilkynnt föður Alex að málið verði tekið tekið til meðferðar hjá dómstólum innan skamms.

Í fréttinni kemur jafnframt fram að vinur Alex, drengurinn sem átti afmæli, vilji ekki lengur leika við hann eftir að rifrildið braust út.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×