Lífið

Vinsælasta poppsveit Norður-Kóreu tekur Kötukvæði fyrir hinn mikilfenglega leiðtoga

Margrét H. Gústavsdóttir skrifar
Youtube
Hvað skyldu vera margar vinsælar popphljómsveitir í Norður-Kóreu? Jú, ein og sú heitir Morabong band.

Morabong band kom fyrst fram í júní 2012. Það er í sama mánuði og lagið Gangnam Style með Psy sló í gegn, tilviljun? Kannski. Morabong bandið skipa 18 tónlistarkonur sem eru allar sérvaldar af hinum mikilfenglega þjóðarleiðtoga Kim Jong-un. Morabong er jafnframt eina poppsveitin í landinu.

Hér eru þær hressar á gamlársdag 2013 að taka hið hátíðlega, en jafnframt ofurhressa lag, "Without a Break" og slá ekki slöku við.





Dömurnar flytja fjölbreytta popptónlist án þess að fipast og eru óaðfinnalega tilhafðar. Í stuttum svörtum kjólum með skart og skraut. Á risatjaldi í bakgrunni rúlla svo myndir af Kim Jong-un. Hvað annað?

Af töktunum í tónlistarmönnunum má sjá að þær hafa stundað tónlistarnám frá blautu barnsbeini og eru allar mjög færar á hljóðfæri sín.

Morabong bandið er ekki hefðbundið skemmtiefni frá Norður-Kóreu þar sem fólk lítur almennt út eins og tálgaðir tindátar með ríkisklippingar. Þær eru jafnvel stutthærðar og tónlistin er hress og lífleg.

Hér er svo hápunkturinn. Á mínútu 5:43 má sjá stelpurnar taka Kötukvæði, sem fyrir áratugum sameinaðist þjóðarsál íslendinga og er árlega sungið í útilegum og við varðelda landsmanna um land allt. Lagið er eftir hinn austurríska Wilhelm Grosz en íslenski textinn var á sínum tíma samin af Sigurði Ágústssyni frá Birtingarholti.





Að lokum er gaman að kíkja á sönghæfileika þessara ungu kvenna en þær myndu rúlla upp undankeppni ædolsins með þessum slaufum.

Fagnaðarlætin í upphafi eru ekki síður áhugaverð en sperrtir gestirnir klappa ákaft og kyrja þegar leiðtoginn gengur í salinn. Tónlistarkonurnar hefja upp raust sína á mín 1:41 og þegar herlegheitunum líkur eftir rúma klukkustund hlaupa þær auðmjúkar út í sal til að fá samþykki leiðtogans.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×