Innlent

Betra að slíta viðræðum en skilja málið eftir í lausu lofti

Þóra Kristín Ásgeirssdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra telur að formleg viðræðuslit við ESB verði betri fyrir samstarfsflokkinn en að skilja málið eftir í lausu lofti. Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins segir hinsvegar að tillaga um formleg slit viðræðna við ESB muni valda uppnámi .

Ragnheiður sagði að stefna Framsóknarflokksins væri ljós og líka stefna Landsfundar Sjálfstæðisflokksins sem teldi að þjóðinni væri betur borgið utan Evrópusambandsins. Hún sagði málið hinsvegar ekki skipta svo miklu máli núna að það ætti að stefna umræðu í Sjálfstæðisflokknum, meðal sjálfstæðra Evrópusinna né heldur meðal þjóðarinnar, í það uppnám sem hún teldi að hún myndi valda.

Ragnheiður minnti líka á að oddvitar flokksins í öllum kjördæmum, þar á meðal hún sjálf hefðu lofað að slíta ekki viðræðunum nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. „Ég sagði það sjálf þá, og við það mun ég standa,“ sagði þingflokksformaðurinn.

Stöð 2 spurði Sigmund Davíð  hvort hann héldi ekki að tillagan myndi valda vandræðum í samstarfsflokknum en hann sagði svo ekki vera.

Það væri fremur merki um það hugmyndafræðilega tómarúm sem fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson hermdi uppá utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar í gær, ef  málið yrði skilið eftir í lausu lofti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×