Handbolti

Björgvin: Þessi byrjun var bara djók

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Doha skrifar
Björgvin og félagar brosa eftir leik.
Björgvin og félagar brosa eftir leik. vísir/eva björk
Björgvin Páll Gústavsson var léttur eftir leik kvöldsins enda fyrstu punktarnir komnir í hús á HM í Katar.

„Við vorum bara að grínast með þessa byrjun. Hún var bara djók til að hlaða smá spennu í þetta," sagði markvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson frekar léttur eftir sigurinn á Alsír.

„Við vorum stressaðir í upphafi en náðum að vinna okkur út úr því. Við sýndum svo karakter og spiluðum af leikgleði. Við þurfum að spila út mótið eins og við gerðum í seinni hálfleik."

Markvörðurinn gat ekki neitað því að sér væri létt eftir leikinn.

„Alveg klárlega. Það var léttir er við komumst yfir og gátum farið að njóta þess að spila handbolta og gera það sem við gerum best pressulausir. Vonando erum við nú byrjaðir og framhaldið verði svo skemmtilegt."

Þrátt fyrir rysjóttan leik gat Björgvin séð ljósan punkt í varnarleiknum og markvörslunni.

„Við höldum báðum liðunum í 24 mörkum þrátt fyrir allt og það eru þær tölur sem við viljum sjá út mótið."

Frakkar bíða nú handan við hornið og það verður alvöru próf gegn einu besta liði, ef ekki því besta, heims.

„Mér líst vel á það og elska að spila gegn Frökkum. Við elskum allir að spila gegn bestu liðunum. Við erum búnir til fyrir þannig leiki. Ef við verðum ekki klárir þá erum við aldrei klárir."

Hlusta má á viðtalið við Björgvin hér að ofan.

Ekki missa af neinu sem gerist á HM. Fylgdu Vísi á Twitter, Facebook og Snapchat (notendanafn: sport365).






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×