Erlent

Hetjan úr kosher versluninni fær ríkisborgararétt

Atli Ísleifsson skrifar
Lassana Bathily er 24 ára og var starfsmaður verslunarinnar þar sem hryðjuverkamaðurinn Amedy Coulibaly réðst til atlögu á föstudaginn.
Lassana Bathily er 24 ára og var starfsmaður verslunarinnar þar sem hryðjuverkamaðurinn Amedy Coulibaly réðst til atlögu á föstudaginn. Vísir/AFP
Fleiri hundruð þúsund kröfðust þess að Lassana Bathily fengi franskan ríkisborgararétt eftir hetjudáð sína í tengslum við hryðjuverkaárásirnar í París í síðustu viku. Innanríkisráðherra landsins hefur nú orðið við þeim kröfum.

Ráðherrann Bernard Cazeneuve tilkynnti nú síðdegis að Bathily komi til með að fá ríkisborgararétt við sérstaka athöfn í næstu viku.

Bathilys bjargaði fjölda manns á föstudaginn í kosher matvöruversluninni í Porte de Vincennes í austurhluta Parísar þegar hryðjuverkamaðurinn Amedy Coulibaly hélt þar fjölda fólks í gíslingu. Margir hafa lýst viðbrögðum Bathily sem hetjudáð.

Bathily var starfsmaður í versluninni og opnaði kælirými verslunarinnar þegar Coulibaly réðst til inngöngu. Fimmtán viðskiptavinir verslunarinnar gátu þá falið sig í kælinum, á sama tíma og Coulibaly hélt fjölda manns í gíslingu.

Að því loknu gat Bathily smyglað sér út úr versluninni og komið skilaboðum til lögreglu um hvernig væri umhorfs í versluninni til að áhlaup lögreglu yrði eins vel heppnað og hugsast gat.

Eftir að honum hafði tekist að flýja úr versluninni setti lögregla hann fyrst í handjárn þar sem grunur lék á að hann væri vitorðsmaður Coulibaly en gat síðar aðstoðað lögreglu með þeim upplýsingum sem hann bjó yfir. Francois Hollande Frakklandsforseti ræddi við Bathily á sunnudaginn og þakkaði honum fyrir hans framlag.

Coulibaly var sá eini sem lét lífið í áhlaupi lögreglu en hann hafi þá þegar myrt fjóra í versluninni.

Í frétt sænska ríkissjónvarpsins segir að stofnunin CRAN (Conseil représentatif des associations noires de France) hóf um helgina herferð þar sem þess var krafist að Bathily yrði veittur ríkisborgararéttur.

Bathily er 24 ára Malímaður sem sótti um franskan ríkisborgararétt á síðasta ári. Hann var lengi án pappíra en fékk að lokum starf í kosher versluninni í austurhluta Parísar.

„Já, ég hjálpaði gyðingum. Við erum bræður. Þetta snýst ekki um gyðinga, kristna eða múslíma. Við erum allir í sama báti,“ sagði Bathily í sjónvarpsviðtali, en hann er sjálfur múslími.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×