Handbolti

Kári: Þú kannt þetta ekkert

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Doha skrifar
Vísir/Eva Björk
„Það er ekkert stress á mér,“ sagði Kári Kristján Kristjánsson, línumaðurinn öflugi, og játti því að honum liði vel í Katar. Ísland mætir í kvöld Svíþjóð í sínum fyrsta leik á HM í handbolta.

„En ég ætla að leiða viðtalið. Ég ætla bara að svara,“ sagði hann á meðan hann beið eftir næstu spurningu blaðamanns er þeir ræddust við á liðshóteli íslenska liðsins í gær.

„Þú kemur með spurningar og ég svara þeim,“ segir hann áður en hann hló að næstu spurningu. „Ég skal leiða þetta. Þú kannt þetta ekkert,“ sagði hann áður en hann tók yfir.

„Það helsta er að það hefur orðið vakning hjá okkur eftir brösótt síðasta ár, þar sem við vorum ekki nógu góðir,“ segir hann og hófst þá „alvarlegi“ hluti viðtalsins sem má heyra í heild sinni hér fyrir ofan.

„Það voru þessir leikir gegn Bosníu og leikirnir í undankeppninni í haust sem voru ekki nógu góðir. En það er önnur holning á okkur núna og við erum mun beittari. Við erum staðráðnir í að eiga gott mót því það er líka þátttökuréttur á ÓL í Brasilíu í húfi. Við þurfum því að vera beittir.“

„Við erum með okkar sterkasta lið, sem er mikilvægast. Menn eru meðvitaðir um að við þurfum að sýna betri leik en við höfum verið að gera og hefur verið stígandi í okkar undirbúningsleikjum.“

„Það var rétt að hvíla menn gegn Svíum en heilt yfir höfum við verið að bæta okkar leik í undirbúningnum fyrir þetta mót.“

Kári Kristján hefur ekki áhyggjur af varnarleik íslenska liðsins sem var misjafn í undirbúningsleikjunum. „Við erum allt eða ekkert þegar það kemur að því. Þegar þetta smellur hjá okkur þá smellur þetta. Varnarmennirnir, sérstaklega miðjublokkin, hafa unnið í hlutunum sín á milli og við vitum að við þurfum að fá góða vörn í gang. Þá kemur markvarslan með og það er 100 prósent að þeir eru klárir.“


Tengdar fréttir

Vísir er kominn til Katar

Fylgist með fréttaflutningi íþróttadeildar 365 frá HM í handbolta í Katar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×