Viðskipti innlent

Tæplega þrjátíu prósent aukning á ferðamönnum milli ára

Stefán Árni Pálsson skrifar
42% erlendra ferðamanna komu til Íslands yfir sumarmánuðina þrjá.
42% erlendra ferðamanna komu til Íslands yfir sumarmánuðina þrjá. vísir/daníel
Í desember 2014 komu 53.716 erlendir ferðamenn til landsins í gegnum Leifsstöð. Það er aukning upp á 28,9% frá desember 2013 en þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

Fjölgun í hverjum mánuði, miðað við fyrra ár, var ávallt yfir 20% á árinu nema í tveimur allra fjölmennustu mánuðunum (júlí og ágúst). Árstíðasveiflan heldur því áfram að minnka. Ferðamönnum fjölgaði um 18% yfir sumarmánuðina, en um 29% aðra mánuði ársins.

Samt sem áður komu 42% erlendra ferðamanna til Íslands yfir sumarmánuðina þrjá.

Þegar litið er árið 2014 í heild fjölgaði ferðamönnum um 24,1% frá fyrra ári. Alls komu 969.181 ferðamenn til landsins gegnum Leifsstöð árið 2014. Mælingar á komum ferðamanna gegnum Leifsstöð ná til um 97% þeirra ferðamanna sem hingað koma. Heildarfjöldi erlendra ferðamanna var því 997.556 árið 2014.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×