Íslenski boltinn

Atli Viðar skoraði þrennu fyrir FH í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Viðar Björnsson.
Atli Viðar Björnsson. Vísir/Daníel
FH-ingar fóru illa með Þróttara í kvöld þegar liðin mættust í A-deild Fótbolta.net mótsins en leikurinn fór fram í Egilshöllinni. FH vann leikinn 7-1 eftir að hafa verið 4-0 yfir í hálfleik.

Atli Viðar Björnsson fór á kostum í leiknum og skoraði þrennu en hin mörk FH-liðsins skoruðu þeir Jérémy Serwy, Emil Pálsson og Steven Lennon en fyrsta mark leiksins var sjálfsmark Karls Brynjars Björnssonar.

Belgíski bakvörðurinn Jonathan Hendrickx lagði upp tvö fyrstu mörk Atla Viðars sem komu á 12. og 33. mínútu leiksins en Atli Viðar innsiglaði síðan þrennuna á 59. mínútu.

Jonathan Hendrickx var ekki eini Belginn í liði FH sem var að gera góða hluti því landi hans Jérémy Serwy skoraði beint úr aukaspyrnu í öðrum leiknum í röð.

Þetta var annar leikur en fyrstu stigin hjá FH í mótinu en Hafnarfjarðarliðið tapaði 2-1 á móti Breiðabliki í fyrsta leik sínum.

Þróttarar hafa aftur á móti tapað tveimur fyrstu leikjum sínum á móti ÍA (1-3) og svo FH í kvöld. Markatala liðsins er því 2-10 eftir tvo leiki.

Allar upplýsingar um markaskorar eru fengnar frá vefsíðunni fótbolti.net en það má finna umfjöllun um þennan leik hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×