Lífið

Lögreglumaður á meðal þeirra fyrstu samkynhneigðu til að giftast í Flórída

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér eru Currie og Woodard að innsigla hjónabandið með kossi.
Hér eru Currie og Woodard að innsigla hjónabandið með kossi.
Lögreglumaðurinn David Currie og Aaron Woodard voru fyrstu samkynhneigðu mennirnir til að giftast löglega í Flórída-fylki í Bandaríkjunum. Þeir giftu sig skömmu eftir miðnætti á þriðjudaginn í síðustu viku, eingöngu nokkrum mínútum eftir að lög um hjónaband samkynhneigðra tóku gildi.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd var Currie í lögreglubúningi sínum, en hann starfar sem rannsóknarlögreglumaður.

„Þetta er æðisleg tilfinning," segir Currie í samtali við Miami Herald og bætir við:

„Ég er ekki eingöngu spenntur mín vegna, heldur einnig vegna þess hvað þetta hefur mikla þýðingu fyrir fylkið í heild sinni. Fyrir fólk sem hefur átt feril eins og ég, þar sem það þykir ekki í lagi að vera samkynhneigður, þar sem það er ekki samþykkt."

Hann sagðist hafa beðið yfirmenn sína í lögreglunni um leyfi til þess að fá að vera í búningnum. „Þegar hermenn gifta sig þá eru þeir gjarnan í sínum búningum. Því spurði ég hvort ég mætti vera í mínum."

Scott Israel, yfirmaður Currie, sagðist hafa verið stoltur af Currie og samþykkti beiðnina á staðnum, að Currie myndi klæðast lögreglubúningi.

Þeir Currie, sem er fimmtugur, og Woodard, sem er 33 ára, kynntust í Fort Lauderdale fyrir ári síðan. Þeir hafa verið samþykktir sem fósturforeldrar og hyggjast ættleiða börn á næstu misserum.

Hér að neðan má sjá sjónvarpsfrétt um hjónabönd samkynhneigðra í Flórída.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×