Íslenski boltinn

Thomas Nielsen ver mark Víkings í sumar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafur Þórðarson og Milos Milojevic vildu frá Thomas Nielsen í markið.
Ólafur Þórðarson og Milos Milojevic vildu frá Thomas Nielsen í markið. vísir/daníel
Pepsi-deildarlið Víkings er búið að ganga frá eins árs samningi við danska markvörðinn Thomas Nielsen og mun hann standa á milli stanganna hjá Víkingum í sumar.

Þetta staðfestir Heimir Gunnlaugsson, formaður meistaraflokksráðs Víkings, við Vísi. Nielsen og Rolf Toft, framherjinn danski sem spilaði með Stjörnunni í fyrra, koma til landsins í dag.

Sjá einnig:Danskur markvörður spilaði með Víkingum í gær 

Nielsen, sem er 22 ára gamall, er fenginn til að leysa Ingvar Þór Kale af hólmi, en Ingvar gekk í raðir Vals þegar hann fékk ekki nýjan samning hjá Víkingum.

Daninn æfði með Víkingum í nóvember á síðasta ári og spilaði einn æfingaleik gegn 1. deildar liði Þróttar sem Víkingar unnu, 4-0.

„Hann leit vel út þannig við Óli Þórðar ætlum að ræða þetta betur. Þetta er strákur sem var í akademíunni hjá Álaborg og er vel skólaður,“ sagði Milos Milojevic, annar þjálfara Víkings, við Vísi í nóvember.

Sjá einnig:Rolf Toft samdi við Víking til tveggja ára 

Nielsen er hjá Danmerkurmeisturum Álaborgar. Hann hefur undanfarin tvö ár spilað með Skjold og Lindholm í neðri deildum Danmerkur.

Þar sem Nielsen er að koma að utan fær hann ekki leikheimild fyrr en 20. febrúar og missir því af öllum fjórum leikjum Víkings í Reykjavíkurmótinu (sex ef liðið kemst í úrslit) sem og fyrsta leik liðsins í Lengjubikarnum gegn KR 15. febrúar.

Hann má fyrst klæðast Víkingstreyjunni í keppnisleik 22. febrúar þegar Víkingar mæta Selfossi í Lengjubikarnum í Egilshöll.


Tengdar fréttir

Fetar Rolf Toft í fótspor Gumma Steins?

Víkingar tefla fram Íslandsmeistaraframherja næsta sumar en Rolf Toft samdi við félagið í gær. Víkingar urðu meistarar þegar þeir fengu síðast slíkan liðstyrk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×