Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segist í yfirlýsingu ætla að afhenda persónuvernd tölvupóst sem hún sendi Gísla Frey Valdórssyni, þáverandi aðstoðarmanni innanríkisráherra, 20. nóvember árið 2013. Pósturinn innihélt greinargerð um hælisleitandann Tony Omos en persónuvernd óskaði eftir þessum pósti vegna rannsóknar á samskiptum Sigríðar Bjarkar og Gísla Freys.
Því var haldið fram á vef Kjarnans í dag að þessi tölvupósturinn hefði ekki fundist hjá innanríkisráðuneytinu né embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum en Sigríður Björk segir í yfirlýsingunni að hann sé vistaður á póstþjóni lögreglunnar og verði hann á meðal þeirra gagna sem Sigríður afhendir Persónuvernd eigi síðar en næstkomandi föstudag.
