Enski boltinn

Gylfi skoraði og fékk rautt | Swansea úr leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi fagnar glæsimarki sínu í dag.
Gylfi fagnar glæsimarki sínu í dag. vísir/getty
Glæsimark Gylfa Þórs Sigurðssonar dugði Swansea ekki til sigurs gegn B-deildarliði Blackburn Rovers í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í dag. Lokatölur 3-1, Blackburn í vil.

Gylfi kom Swansea yfir með frábæru skoti langt fyrir utan vítateigs á 21. mínútu en 14 mínútum fyrr hafði velska liðið misst Kyle Bartley af velli með rautt spjald. Þetta var sjötta mark Gylfa fyrir Swansea í vetur.

Chris Taylor jafnaði metin á 23. mínútu og Rudy Gestede kom Blackburn svo yfir á 78. mínútu. Craig Conway negldi svo síðasta naglann í kistu Swansea þegar hann skoraði þriðja mark Blackburn þremur mínútum fyrir leikslok.

Það er ekki allt búið enn en Gylfi fékk að líta rauða spjaldið undir lok leiksins fyrir að brjóta á markaskoraranum Taylor. Gylfi er því á leið í þriggja leikja bann sem var það síðasta sem Swansea þurfti á að halda.

Blackburn er því komið í 5. umferð en Swansea er úr leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×