Erlent

Japansstjórn ætlar ekki að gefast upp

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
ISIS-liðar hóta að hálshöggva mennina tvo.
ISIS-liðar hóta að hálshöggva mennina tvo. vísir/afp
Yfirvöld í Japan heita því að gera allt hvað þau geta til að bjarga japönsku gíslunum tveimur sem vígasveitir Íslamska ríkisins hafa hótað að drepa fái þeir ekki 200 milljón dollara lausnargjald.

Vígamennirnir gáfu Japansstjórn á þriðjudag 72 klukkustundir til að láta af hendi lausnargjaldið, sem nemur um 26 milljörðum íslenskra króna. Ekki er vitað hvort stjórnvöld hafi orðið við kröfunni.

„Við munum ekki gefast upp. Við teljum það skyldu okkar að tryggja öryggi gíslanna og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að gera það,“ sagði Yashudie Nakayama, fulltrúi utanríkisráðherra Japans í samtali við fréttastofu Reuters.



Mennirnir heita Kenji Goto og Haruna Yukawa. Goto er óháður fréttamaður sem hélt til Sýrlands á síðasta ári til að segja fréttir frá átökunum þar. Yukowa er hins vegar mikill áhugamaður um vopn og stríðsátök, og sagður reka „hernaðarfyrirtæki“. Hann hefur undanfarið verið í Írak og Sýrlandi, að því er virðist til þess að komast í samband við hryðjuverkamennina.


Tengdar fréttir

Hóta að taka japanska gísla af lífi

Hryðjuverkahópurinn ISIS hefur birt myndband þar sem því er hótað að taka tvo japanska gísla af lífi ef að Japan borgar ekki lausnargjald fyrir þá.

Abe heitir því að frelsa gíslana

Forsætisráðherra Japans segist staðráðinn í að frelsa japönsku gíslana tvo sem vígasveitir Íslamska ríkisins hafa hótað að drepa, fái þeir ekki jafnvirði rúmlega 26 milljarða króna í lausnargjald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×