Lífið

Maður með skæri í höfðinu bað kurteisislega um hjálp

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Maðurinn var með skæri í höfðinu.
Maðurinn var með skæri í höfðinu.
Mexíkóskur maður hefur fengið viðurnefnið „herramaðurinn“ eftir að hann gekk inn á spítala með skæri í höfðinu og bað kurteisislega um hjálp.

„Afsakið, ég á við smávegis vandamál að stríða,“ mun Jonas Acevedo Monroy hafa sagt við starfsfólk á spítala í borginni Chihuahua í Mexíkó.

Margir spyrja sig eflaust hvernig maður skæri geta endað inni í höfði manns. Monroy var staddur á bar í grennd við spítalann. Vinir hans segja, í samtali við miðla í Mexíkó, að annar maður hafi komið inn á barinn. Hann hafi byrjað samræður við Monroy en greinilega verið mikið niðri fyrir. Maðurinn gerði sitt besta til að æsa Monroy upp en það tókst ekki. Monroy bauðst til að kaupa drykk handa manninum sem launaði fyrir sig með því að stinga Monroy í höfuðið með skærum. Maðurinn hafði verið með skærin í vasanum og því líkur á að glæpurinn hafi verið skipulagður.

Eins og einhverjir ná eflaust að greina á meðfylgjandi mynd fékk Monroy skærin við vinstra gagnaugað. Hann gat, á einhvern ótrúlegan hátt gengið, með aðstoð vinar, inn á spítalann. Þar lagði hann fram hina kurteisislegu bón um aðstoð og tók meira að segja í hönd ritarans í móttökunni á spítalanum.

Að sögn talsmann spítalans héldu starfsmenn fyrst að um einhverskonar hrekk væri að ræða. En skömmu eftir að Monroy kom inn á spítalann leið yfir hann og þá var hann fluttur með hraði á gjörgæsludeildina þar sem skærin voru fjarlægð. Að sögn talsmannsins telja læknar Monroy vera heppinn að hafa lifað árásina af.

Reiði maðurinn sem stakk Monroy er nú í haldi lögreglu og þarf líka að afplána langan dóm fyrir stunguna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×