Innlent

„Efnislega er Ísland ekki í neinum viðræðum um inngöngu í ESB“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fjármálaráðherra kallar eftir efnislegri umræðu um ESB.
Fjármálaráðherra kallar eftir efnislegri umræðu um ESB. Vísir/GVA
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, býst við því að tillaga um að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði lögð fram á næstu dögum. Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, rifjaði upp hörð viðbrögð þjóðarinnar við tillögu um viðræðuslit sem lögð var fram seinasta vetur.

Fjölmenn mótmæli voru meðal annars haldin nokkra laugardaga í röð þar sem fólk kom saman og krafðist þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðnanna.

Guðmundur spurði Bjarna hver væri hugur hans til tillögu um viðræðuslit. Hann sagðist ekki muna það öðruvísi en að Bjarni hefði sagt á síðasta þingi, þegar svipuð tillaga kom fram, að finna yrði einhverja leið til að þjóðin gæti komið að málinu.

Bjarni sagði afstöðu sína skýra. Hann hefði á sínum tíma greitt atkvæði gegn aðildarumsókn og þá hefði niðurstaða landsfunds Sjálfstæðisflokksins verið sú að Íslandi sé best borgið utan ESB.

„Ríkisstjórnin hefur engin áform um að halda viðræðunum áfram. Það er of mikið gert úr því að ríkisstjórnin vilji koma fram með þennan vilja og lýsa honum með atkvæðagreiðslu hér í þinginu. [...] Efnislega er Ísland ekki í neinum viðræðum um inngöngu í ESB,“ sagði Bjarni.

Þá sagði hann of mikið gert úr forminu, það er með hvaða hætti leiða ætti málið til lykta.

Guðmundur sagði þá að ríkisstjórnin hefði ekkert umboð til að slíta viðræðunum formlega þar sem ekkert stæði í stjórnarsáttmála um það. Ríkisstjórnin yrði að sækja sér slíkt umboð með alþingiskosningum.

Bjarni sagðist þá kalla eftir efnislegri umræðu um málið:

„Hvað þýðir það að ganga í ESB? Ég kalla eftir efnislegri umræðu um það. Þegar hún fer fram mun öldurnar lægja í samfélaginu.“


Tengdar fréttir

Von á nýrri tillögu um afturköllun aðildarumsóknar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráherra á von á nýrri tillögu um afturköllun aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu snemma á þessu ári. Utanríkisráðherra fagnar því og segist vilja klára málið sem fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×