Körfubolti

NBA: Lakers vann Chicago Bulls í tvíframlengdum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jordan Hill ver hér skot frá Derrick Rose.
Jordan Hill ver hér skot frá Derrick Rose. Vísir/AP
Los Angeles Lakers endaði níu leikja taphrinu sína í NBA-deildinni í körfubolta í nótt eftir sigur á Chicago Bulls í tvíframlengdum leik en tap hefði þýtt nýtt félagsmet yfir flest töp í röð. Memphis Grizzlies vann sinn fimmta leik í röð í nótt.

Jordan Hill skoraði 26 stig í 123-118 sigri Los Angeles Lakers á  Chicago Bulls en hann tryggði sínu liði líka seinni framlengingu með körfu í lok framlengingar númer eitt.

Wayne Ellington var með 23 stig fyrir Lakers-liðið og nýliðinn Jordan Clarkson bætti við 18 stigum í fyrsta sigurleik Lakers síðan 9. janúar síðastliðinn en liðið lék án Kobe Bryant sem verður ekkert meira með í vetur.

Tap hefði þýtt tíu töp í röð og jöfnun á óvinsælu félagsmeti Los Angeles Lakers sem liðið setti þegar Magic Johnson þjálfari það árið 1994.

Jimmy Butler skoraði 35 stig fyrir Chicago Bulls en liðið tryggði sér framlengingu með því að vinna upp sjö stiga forskot á aðeins 70 sekúndum í lok venjulegs leiktíma. Pau Gasol mætti þarna sínum gömlu félögum og var með 20 stig og 10 frákast. Það var hans karfa sem kom leiknum í framlengingu.

Zach Randolph var með 15 stig og 17 fráköst þegar Memphis Grizzlies hélt Denver Nuggets undir 70 stigum og vann 99-69.

Þetta var fimmti sigur Memphis í röð og tíundi leikurinn í röð þar sem Zach Randolph nær tvennunni. Jeff Green skoraði 13 stig fyrir Memphis og þeir Courtney Lee, Nick Calathes og Beno Udrih voru allir með 11 stig.

Wilson Chandler og Kenneth Faried skoruðu báðir 10 stig fyrir Denver sem tapaði í áttunda sinn í síðustu níu leikjum.

Öll úrslit í NBA-deildinni í nótt:

Orlando Magic - Milwaukee Bucks 100-115

Indiana Pacers - New York Knicks 103-82

Memphis Grizzlies - Denver Nuggets 99-69

Los Angeles Lakers - Chicago Bulls 123-118 (tvíframlengt)

Staðan í NBA-deildinni

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×