Innlent

Krakkarnir hafast við í fjöldahjálparstöð Rauða krossins

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Hlíf Hrólfsdóttir segir ungmennin lítið hafa kvartað, en að flest hafi þau verið heldur þreytt eftir nóttina.
Hlíf Hrólfsdóttir segir ungmennin lítið hafa kvartað, en að flest hafi þau verið heldur þreytt eftir nóttina. vísir/aðsend
Nemendurnir sextíu og bílstjórinn sem sátu föst í rútu í Staðardal í nótt hafast nú við í fjöldahjálparstöð Rauða krossins sem opnuð var í félagsheimilinu á Hólmavík um hádegisbil í dag. Ungmennin voru í rúmar tólf klukkustundir í rútunni eftir að vegurinn sunnan Hólmavíkur fór í sundur í vatnavöxtum.

Nemendurnir eru allir á unglingastigi í Fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki en þeir voru nú um helgina í vinaskólaheimsókn í Menntaskólanum á Ísafirði. Rútan var á leið til Hólmavíkur frá Ísafirði seint í gærkvöld en festist fremst í Staðardal norðan Hólmavíkur þar sem vegurinn hafði rofnað. Ekki þótti hættandi á björgunaraðgerðir í nótt og höfuðst ungmennin við í rútunni en það þótti öruggasti kosturinn.

Hlíf Hrólfsdóttir, formaður Rauða krossins á Hólmavík, segir ungmennin hafa það gott í félagsmiðstöðinni. Þeim hafi verið færður matur og að öll hafi þau glaðst yfir að komast í sturtu og á salerni.

„Núna eru þau flest að reyna að leggja sig og svona. Svo er það aðallega bara spil og tafl en síðan eru líka símar og tölvur,“ segir hún. Hún segir ungmennin lítið hafa kvartað, það hafi farið ágætlega um þau í nótt, þrátt fyrir að setan hafi líklega verið heldur þreytandi.

Þá segir hún það ekki liggja fyrir hvenær börnin muni komast til síns heima, en á von á að bráðabirgðaviðgerðum ljúki rétt eftir kvöldmatarleyti. 


Tengdar fréttir

Sextíu ungmenni föst í rútu við Hólmavík

Björgunarsveitarmenn og Vegagerðarmenn eru nú að undirbúa að selflytja yfir 60 unglinga úr Fjölbrautarskólanum á Sauðárkróki úr rútubíl, þar sem þeir hafa hafist við í alla nótt eftir að þjóðvegurinn sunnan Hólmavíkur grófst í sundur vegna vatnavaxta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×