Innlent

Notfæra sér Tinder og Facebook til að svíkja fé út úr fólki

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Svikararnir hafa búið til tilbúna „einstaklinga“, á samfélagsmiðlum sem eru til þess fallnir að virka traustvekjandi.
Svikararnir hafa búið til tilbúna „einstaklinga“, á samfélagsmiðlum sem eru til þess fallnir að virka traustvekjandi. Vísir/Getty
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greinir frá því á Facebook-síðu sinni í dag að henni hafi borist tilkynningar um að svindlarar nýti sér stefnumótasíður til að kynnast fólki og svíkja svo út úr því fé.

„Það sem er sérstakt við þessa tegund svika er það að svikararnir taka sér langan tíma, oft marga mánuði, í að vinna traust fórnarlambsins, oft með fagurgala og fögrum orðum, til þess eins að svíkja út peninga.“

Stefnumótaforritið Tinder og samfélagsmiðlar á borð við Facebook og Google+ eru meðal annars notuð í þessum tilgangi. Svikararnir hafa búið þar til tilbúna „einstaklinga“, eða „plat-prófíla“, sem séu þá til þess fallnir að virka traustvekjandi.

„Þegar traust hefur skapast kemur oftar en ekki upp „neyðarástand“ sem verður til þess að svikahrappurinn „neyðist“ til að biðja fórnarlambið um fé að láni, en viðkomandi sé í þannig aðstöðu að geta ekki spurt neinn annan. Þarna er um þekkta svikatilraun að ræða og mikilvægt að minna fólk á að gæta vel að sér í öllum tilvikum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×