Eyjan Hrappsey er um fimm kílómetra utan við Stykkishólm og fræg fyrir prentsmiðju og bókaútgáfu en þar var fyrsta íslenska prentsmiðjan sem prentaði eingöngu veraldleg rit en ekki kirkjubækur. Hrappsey blasir við frá heimili Haraldar Sigurðssonar eldfjallafræðings en í Stykkishólmi rekur hann eldfjallasafn þar sem einstakri jarðfræði Hrappseyjar er meðal annars gerð skil. Bergið kallast anortósít.
„Það er mjög sjaldgæft á jörðinni en mjög þungt og sterkt og fallegt berg en mjög algengt á tunglinu afturámóti,“ segir Haraldur.

„Og þeir eru eðlisléttari en kvikan og fljóta upp í kvikunni og mynda lag ofan á kvikunni, eins og rjóminn ofan á undanrennu. Svo storknar það lag og þá verður þetta berg til. Þannig eru Hrappsey og tunglið að sumu leyti skyld.“
-Þannig að Hrappsey er einstök i íslenskri jarðsögu?
„Hún er það. Það er enginn vafi.“
Haraldur telur að nær hefði verið að láta bandarísku Apollo geimfarana æfa sig í Hrappsey heldur en í Öskju á árunum 1965 og 1967 þegar þeir undirbjuggu sig fyrir tunglferðirnar.
„Það hefði verið ágætt að þjálfa þá í Hrappsey. Þá hefðu þeir þekkt þetta berg. Þeir höfðu ekki hugmynd um hvað þeir voru að sjá, þegar þeir lentu.“
