„Ég hef skilning á því að það eru fjölskyldur þarna úti sem hafa áhyggjur af áhrifum bólusetningarinnar,“ sagði Obama í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina NBC á sunnudag. „Vísindin eru hins vegar óumdeilanleg. Við höfum skoðað þetta aftur og aftur. Það eru margar ástæður fyrir bólusetningu en engar fyrir því að gera það ekki,“ sagði Obama og hvatti foreldra eindregið til þess að láta bólusetja börnin sín.
Sagði hann vandann liggja í því að það sé ákveðinn hópur sem ekki er hægt að bólusetja, til að mynda nýburar, og þeir eigi mun meiri hættu á að veikjast alvarlega ef það verður til stór hópur barna sem ekki er bólusettur og mun þá auka líkur á faraldri.