Erlent

Nígeríski herinn sækir gegn Boko Haram

Atli Ísleifsson skrifar
Stjórnarherinn í Nígeríu sótti gegn mönnum Boko Haram fyrr í dag, en hryðjuverkasamtökin hafa sótt hart að milljónaborginni Maiduguri í norðausturhluta landsins síðustu daga. Borgin er hernaðarlega mjög mikilvæg, en sókn hersins kemur tveimur vikum fyrir þing- og forsetakosningarnar í landinu.

Sjónarvottar segja í samtali við AFP að sókn hersins hafi hafist klukkan þrjú aðfaranótt sunnudagsins. „Allir íbúar borgarinnar eru óttaslegnir,“ segir Adam Krenuwa, íbúi borgarinnar.

Myndi Maiduguri falla í hendur liðsmanna Boko Haram myndi það þykja mikið áfall fyrir stjórnvöld í Nígeríu sem hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að hafa ekki tekist að stöðva sókn Boko Haram síðastliðin sex ár.

Íbúafjöldi borgarinnar Maiduguri hefur tvöfaldast síðustu misserin, fyrst og frekst vegna mikils straums flóttamanna sem rekja má til sóknar hryðjuverkasamtakanna.

Forseta- og þingkosningar fara fram í landinu þann 14. febrúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×