Innlent

Glænýju sjónvarpi stolið og vitað hver þjófurinn er

Stefán Árni Pálsson skrifar
Guðmundur Týr veit hver þjófurinn er.
Guðmundur Týr veit hver þjófurinn er. vísir
Brotist var inn í húsnæði Götusmiðjunnar í nótt og glænýju sjónvarpi stolið. Götusmiðjan er staðsett að Stórhöfða 15 í Reykjavík.

Götusmiðjan er sérhæft meðferðarheimili fyrir ungt fólk á aldrinum 15-20 ára. Guðmundur Týr Þórarinsson, einnig þekktur sem Mummi, telur fullvíst að ungur maður, sem hefur stundum leitað til Götusmiðjunnar, hafi verið að verki. Mbl.is greindi fyrst frá málinu.

„Það er svona verið að leita að honum í borginni,“ segir Guðmundur en umræddur maður hefur áður orðið uppvís að því að stela verðmætum frá Götusmiðjunni.

„Hann var í heimsókn hjá okkur í gær og þá var sjónvarpið enn í kassanum. Drengurinn hafði sérstakan áhuga á því og spurði fjölmargra spurninga. Þessi strákur er á götunni og hvarf síðan bara út í nóttina eftir heimsóknina. Síðan mætum við bara í morgun og þá er sjónvarpið horfið.“

Sjónvarpið er glænýtt, frá framleiðandanum Samsung. Það er 48 tommu og var gjöf frá Minningarsjóði Lofts Gunnarssonar. Innbrotsþjófurinn braut sér leið inn í húsnæðið með því að brjóta glugga og upp hurð.

„Hann vissi nákvæmlega hvað hann var að gera. Það var engu öðru stolið en hér innanhús eru einnig tölvur og fleiri raftæki.“


Tengdar fréttir

Götusmiðjan opnar aftur á ný

"Við erum eina vestræna borgin sem rekum ekki neyðarúrræði fyrir unglinga á götunni. Það er ekki til. Það er blóðugt að samfélagið bjóði ekki upp á stað þar sem þessir krakkar geta komið saman,“ segir Guðmundur Týr Þórarinsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×