Íslenski boltinn

Skúli Jón: Verð bara fallegri fyrir vikið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
KR-ingurinn Skúli Jón Friðgeirsson skrifaði í dag undir þriggja ára samning við félagið eftir tæplega þriggja ára dvöl í Svíþjóð.

Hann fékk fá tækifæri með Elfsborg og síðar Gefle í sænska boltanum og segist því vera feginn að vera aftur kominn heim til Íslands.

„Ég spilaði ekki nógu mikið af fótbolta og þess vegna er ég kominn aftur hingað. Ég vil spila meira og komast í gang aftur,“ sagði Skúli Jón en viðtalið má sjá í heild sinni hér efst í fréttinni.

„Það er alltaf mjög gott að koma aftur heim í KR og því er ég mjög glaður.“

Hann segir að það hafi aldrei komið til greina að fara í annað félag en KR og Skúli Jón segist ánægður með að félagaskiptin séu nú gengin í gegn.

„Í þessu félagi er bara eitt í gangi - það er að vinna titla. Við stefnum á að vinna allt sem er í boði.“

Skúli Jón er með lítinn skurð yfir hægra auganu eftir atgang á æfingu með KR. „Það er strax byrjað að láta mann finna fyrir því. Það er mikil samkeppni og margir góðir leikmenn í liðinu. Það er því harka í þessu og fínt að menn séu að taka á því.“

„Ég verð bara fallegri fyrir vikið,“ sagði hann að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×