Íslenski boltinn

Keflavík vann Suðurnesjaslaginn | Fjör í Lengjubikarnum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Albert var á skotskónum.
Albert var á skotskónum. Vísir/Vilhelm
Fimm leikir fóru fram í A-deild Lengjubikars karla í gær. ÍA, Keflavík, Fylkir og Þróttur unnu sína leiki og Selfoss og Grótta skildu jöfn.

ÍA vann Hauka í fjörugum leik í Akraneshöllinni, 4-3. Jón Vilhelm Ákason skoraði tvö mörk fyrir ÍA, en staðan var jöfn í hálfleik 2-2. Sjálfsmark og mark frá Arnari Má Guðjónssyni tryggðu ÍA sigur í síðari hálfleik.

Björgvin Stefánsson skoraði í tvígang fyrir Hauka, en hann kom frá BÍ/Bolungarvík á dögunum. Arnar Aðalgeirsson bætti við einu.

Keflavík vann grannaslaginn gegn Grindavík 4-2, en leikið var í Reykjaneshöllinni í hádeginu í gær. Óli Baldur Bjarnason kom Grindavík yfir, en Haraldur Freyr Guðmundsson og Hólmar Örn Rúnarsson sáu til þess að Keflavík leiddi í hálfleik.

Jósef Kristinn Jósefsson jafnaði metin fyrir Grindavík eftir klukkutíma leik og allt stefndi í jafntefli. Hólmar Örn bætti við öðru marki sínu í uppbótartíma og Bojan Stefán Ljubicic skoraði fjórða mark Keflavíkur rétt áður en yfir lauk. 4-2 sigur Keflavíkur staðreynd.

Selfoss og Grótta skildu jöfn 1-1. Magnús Ingi Einarsson kom Selfoss yfir, en Jón Björgvin Kristjánsson jafnaði metin stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Þróttur var ekki í vandræðum með BÍ/Bolungarvík í Egilshöllinni í dag. Þróttur vann 2-0, en Skástrikið lék einum færri frá 34. mínútu þegar Nigel Quashie fékk rautt spjald. Vilhjálmur Kaldal Sigurðsson skoraði bæði mörk Þróttar.

Fylkir vann ÍBV 4-0 í Egilshöllinni í dag. Albert Brynjar Ingason skoraði tvö mörk og þeir Andrés Már Jóhannesson og Oddur Ingi Guðmundsson bættu við sitt hvoru marki fyrir Árbæjarliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×